Merkileg frétt í kvöldfréttum á RÚV í kvöld. Þar var rætt við mann sem nokkrum sófasettum hafði verið stolið frá. Hann var, eins og gefur að skilja, súr yfir tapinu sem fyrirtæki hans hafði upplifað. Hafði alltaf talið sig öruggan með varninginn, enda væri ekki auðvelt að flytja hann milli staða og fela. En verst þótti honum eiginlega að upplifa það að hann væri ekki öruggur á landinu.
Mér finnst athyglisverðast við þessa frétt að það sé fréttnæmt að manninum finnist hann ekki öruggur. Ég á vini sem hafa lýst því hvernig þeir upplifa að konum bregði við, færi sig yfir götu, þegar þeir ganga á eftir þeim. Þeir hafa tekið eftir því að konur upplifa sig margar ekki öruggar á götum úti. Ég hef sjálf alltaf varann á mér þegar ég geng um göturnar ein, en ég neita að láta aðra skilgreina hvar ég sé örugg eða ekki. Fréttir af ofbeldi og nauðgunum gera lítið til þess að stuðla að því að konur upplifi sig öruggar. En þetta verður aldrei að fréttaefni. Það er greinilega auðveldara að fela konur en sófasett.
Steinunn Rögnvaldsdóttir skrifaði prýðilega ritgerð um öryggi kvenna sl. vor. Ritgerðina má finna hér, en styttri útgáfa birtist í 19. júní í sumar.