11.8.09

ríkisstjórnarsamstarfið snýst ekki um Icesave

Nú er því slegið upp að ríkisstjórnarsamstarfið sé brostið ef Icesave samningarnir nást ekki í gegnum þingið. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að deilt sé um samninginn, þetta er erfið staða sem íslenska ríkið er í og sá stóri hluti þjóðarinnar sem ekki ber persónulega ábyrgð á þessum skuldum á allan rétt á að vera ósáttur. Komist samkomulagið ekki í gegnum þingið þarf ríkisstjórnin að að finna leið í gegnum það. Þessi stjórn hins vegar var hvorki mynduð í kringum Icesave né Evrópusambandsaðild. Stjórnin er mynduð til þess að varðveita hér velferðarsamfélag á erfiðum tímum, eða eins og segir í samstarfsyfirlýsingu hennar, að "tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika og leita þjóðarsamstöðu um leið Íslands til endurreisnar – nýjan stöðugleikasáttmála." Þá vill hún "kappkosta að byggja upp á Íslandi opið og skapandi umhverfi sem stenst samanburð við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar í Evrópu, bæði að því er varðar efnahag og lífsgæði. Í þeim efnum horfum við sérstaklega til frændþjóða okkar á Norðurlöndum." Þetta er það sem skiptir máli, ekki hvort Icesave stendur eða fellur. Mér þætti gaman að vita hvaða þingmenn það eru sem vilja rifta ríkisstjórnarsamstarfinu og koma núverandi stjórnarandstöðuflokkum til valda (þótt þjóðstjórn væri sennilega líklegasti arftaki þessarar stjórnar, eins og Gunnar Helgi kollegi minn benti á í fréttum í gær).

Annars ræddi ég um alþjóðlegar afleiðingar þess að hafna samningunum í kvöldfréttum í gær. Það sem kemur ekki skýrt fram í viðtalinu er að ef við ætlumst til að fá Breta og Hollendinga til að semja upp á nýtt, þá þurfum við að sýna fram á að það sé þeim í hag. Hvað þessi ríki varðar er samningaferlinu lokið og það að segja að við höfum skipt um skoðun skiptir engu. Það er svipað og að skrifa undir allt of stórt bílalán, taka lyklana að bílnum, keyra einn hring og ætla síðan að skila. Samningaferli virka bara ekki þannig. Í viðtalinu benti ég á að þessi ríki eru líkleg til að beita sér gegn Íslandi á alþjóðavettvangi, beint og í gegnum alþjóðastofnanir. Ég sé að Mike, kollegi minn við Boston University, hefur tekið undir þau sjónarmið í morgunfréttum. Skaðinn sem það getur valdið íslensku samfélagi er nokkuð sem þarf að meta þegar ákvörðunin er tekin.
Setja á Facebook