5.8.09

kreppan og koppaþjálfun

Ég hef óendanlega gaman af öllum þessum "ófyrirséðu afleiðingum kreppunnar" hugmyndum sem poppa upp þessa dagana. Ég rakst á eina slíka í gær, á bloggi á NY Times um barnauppeldi. Þar kemur fram að sala á því sem kaninn kallar "training pants" hafi fallið verulega síðastliðinn vetur. Þarna er um að ræða e.k. bleiubuxur, sem börn nota meðan verið er að þjálfa þau af bleium og á kopp. Þar sem þessar buxur eru helmingi dýrari en bleiurnar þá virðist fólk vera að sleppa þessu millistigi og leggja harðar að börnunum að læra að pissa í kopp. Flestir bandarískir vinir mínir hafa aðhyllst "child-directed" nálgun á þetta, og beðið eftir því að barnið segðist vera tilbúið að sleppa bleiunum. Það hefur þýtt bleiunotkun fram á fjórða aldursár í mörgum tilfellum. Höfundurinn veltir því fyrir sér hvort bleiubörn í dag verði fljótari að læra að nota kopp, af fjárhagslegum ástæðum.

Í athugasemdum við bloggið eru fjölmargar reynslusögur foreldra af koppaþjálfun. Nokkrar lýsa því hvernig börn voru látin vera bleiulaus langa helgi til að læra hversu óþægilegt það væri að pissa á sig og þannig hafi þessi þjálfun tekið örskamman tíma. Allt í einu skaut upp mynd í huga mér af íslenska ríkinu sem bleiubarni sem alþjóðasamfélagið er að þjálfa til að nota koppinn. Það er sannarlega ekki þægileg upplifun.
Setja á Facebook