4.8.09

karlar og vændi

Rakst á athyglisverða frétt á Pressunni í gær, um að ný norræn rannsókn sýndi fram á það að fleiri karlmenn en konur á Norðurlöndunum stundi vændi (þ.e. selji vændi, ekki kaupi það). Mér fannst þetta auðvitað athyglisvert í ljósi þess að varla er til orð sem nær að lýsa karli sem selur sig (hórkarl er kannski undantekning, en ég man eftir frétt á RÚV í vor þar sem orðskrípið vændiskarl var notað) og á flestum þeim tungumálum sem ég kann eitthvað í, þá vísa orðin frekar til kvenna en karla. Þetta er auðvitað engin sönnun en segir eitthvað til um hugarfarið.

En nóg um það. Mér fannst nú eitthvað vanta í fréttina svo ég leitaði frekari upplýsinga. Hér er, að því er ég kemst næst, skýrslan sem vísað er í. Samkvæmt henni (bls. 375) eru það 9 manns sem úr 2500 manna úrtaki (og 736 svöruðu þessari spurningu) sem segjast hafa selt sig. Þar af eru 4 karlar og 5 konur. Ég er nú enginn sérfræðingur í aðferðafræði en ég á erfitt með að trúa að hægt sé að alhæfa um það að fleiri karlar en konur stundi vændi út frá þessum gögnum.

Úrtakið var líka 2500 manns af þjóðskrá. Þar er ekki að finna fólk sem selt er mansali, hvorki karla né konur. Þetta getur varla talist vönduð blaðamennska, þótt auðvitað sé eðlilegt að skoða bæði karla og konur sem stunda vændi.
Setja á Facebook