9.7.09

valþröng

Var að lesa grein á CommonDreams vefsíðunni (sem ég mæli eindregið með fyrir fólk sem hefur áhuga á að breyta heiminum til hins betra þótt síðan sé ansi Bandaríkjamiðuð) um möguleika einstaklinga til að breyta heiminum. Greinin fjallar um það hvort hegðun hvers og eins okkar hafi í raun einhver áhrif til að hjálpa umhverfinu, þegar við störfum alltaf innan kerfisins. Það að fara í styttri sturtu breytir engu um það að það er nær ekkert nothæft vatn eftir í heiminum, þar sem einstaklingar og heimili nota lítinn hluta af vatninu. Þetta er kannski svipuð lógík og margir foreldrar notuðu (nota?) á börn sín þegar þau vildu ekki borða: "Hugsaðu um öll svöngu börnin í [setjið inn hungursneyð frá ykkar kynslóð] sem fá ekkert að borða." Eins og það breyti því að ég hef ekki matarlyst?

Höfundurinn fjallar um það sem hann kallar double bind, eða að standa frammi fyrir tveimur vondum valkostum. Sama hvað maður gerir, þá verður niðurstaðan ekki sú sem maður óskar sér. Það er vegna þess að kostirnir eru fyrirfram mótaðir af kerfi, sem er gjarnan ósanngjarnt. Setjum þetta í samhengi við núverandi aðstæður hér á landi, sérstaklega hvað varðar Icesave. Það er vondur kostur að samþykkja þennan samning, hann setur á okkur þungar byrðar og gengur gegn réttlætiskennd margra sem ekki stofnuðu til þessara skulda. En að greiða ekki setur okkur í veika stöðu gagnvart skuldunautum ríkisins og þeim sem geta veitt okkur aðstoð. Þetta eru bæði lausnir sem bregðast ekki við hinum raunverulega vanda (þótt ég sé sannfærð um að út frá alþjóðapólitískum sjónarmiðum sé skömminni skárra að samþykkja samninginn).

Kannski er eina lausnin, sem ekki er ömurleg, að reyna að umbylta kerfinu. Verst að það hefur ekki virst gefa svo góða raun heldur.
Setja á Facebook