10.7.09

tvöföld atkvæðagreiðsla

Það hefur mikið verið rætt sl. ár hvort fara eigi í tvöfalda atkvæðagreiðslu um ESB-aðild. Í því fælist þá að fyrst yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort fara eigi í aðildarviðræður. Fyrir því er væntanlega meirihluti, eða það segja a.m.k. allar skoðanakannanir sem gerðar hafa verið. Flest erum við forvitin að sjá hvað ESB hefur að bjóða (auðvitað ekki hvað við höfum fram að færa, það er ekki íslenska leiðin) og erum til í að gefa sambandinu aðeins undir fótinn, alveg án þess að vera tilbúin að segja hvort við í raun og veru viljum inn. Svo, eftir 18-36 mánaða samningaferli myndum við hafa aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við ætlum inn. Núverandi skoðanakannanir eru auðvitað ekki alveg marktækar, það er allt of langt þangað til slík ákvörðun yrði tekin en það er alls ekki ljóst hvort meirihluti sé fyrir aðild.

Það er hins vegar ein leið til að tryggja það að aðild verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, og það er að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður. Af hverju það? Jú, allar rannsóknir sýna að þegar fólk er beðið um að samþykkja ferli áður en það fer í gang, þá er það mun líklegra til að samþykkja niðurstöðuna, hver svo sem hún er. Þetta hefur t.d. verið sýnt fram á með tilraunum þar sem gengið er í hús í einni götu og fólk beðið að samþykkja alls konar hluti í hverfinu með undirskrift, en ekki gengið í hús í næstu götu. Þegar svo er farið í framkvæmdir koma engar kvartanir frá fólkinu sem skrifaði undir, en endalausar kvartanir frá fólkinu sem ekki var spurt.

Andstæðingar ESB-aðildar, sem sátu niðri á þingi í gær og skrifuðu breytingatillögu væru að þjálfa fólk í að "segja já við Evrópu," svo ég vitni í góðan kollega minn á Bretlandseyjum en hann er mjög spenntur fyrir því að fá Ísland inn í ESB og taldi þetta fullkomna leið til að tryggja það.
Setja á Facebook