Ég er ekki frá því að Icelandair sé farið að hegða sér skynsamlega hvað varðar val á nýjum flugleiðum. Mér fannst San Francisco alltaf frekar skrýtinn áfangastaður fyrir vesturströndina BNA, það gekk heldur ekki upp til lengri tíma. Miklu meiri tengsl eru á milli Vestur-Kanada og NV-ríkja Bandaríkjanna við Norðurlöndin og ég vona að flugið til Seattle verði arðbært. Það hentar mér líka miklu betur að fljúga beint vestur og geta svo hoppað suður eftir til Los Angeles frá Seattle heldur en að þurfa að gista nótt í New York eða Boston á vesturleið, sem er næstum alltaf raunin. Og nú á að fara að fljúga beint til Brussel. Þótt ég þurfi ekki að fara nema kannski 1-2 sinnum á ári, þá munar þetta heilum helling í ferðatíma. Vonandi verður þetta líka ódýrari kostur en að þurfa að tengja í gegnum Köben eða taka lest frá Amsterdam eða París, eins og hefur verið raunin hingað til. Skondið að þetta gerist líka þegar Icelandair er komið í eigu ríkisins að mestu. Sagan sagði nefnilega að flugfélögin hefðu enga ástæðu séð til að bæta Brussel við hjá sér af því opinberir starfsmenn sem þurftu að fara þangað þyrftu hvort eð er að fljúga með þeim til Evrópu. Svo er það tímasetningin á tilkynningunni; þetta hefur væntanlega verið í skoðun lengi en er tilkynnt á næsta vinnudegi eftir að Ísland leggur inn umsókn um aðild að ESB.
Talandi um ESB, þá var ég í Vikulokunum á laugardag og í fréttum Stöðvar 2 í gær að tala um ýmsa hluti því tengda.