Magnaður fréttaflutningur af brotthvarfi Söru Palin úr ríkisstjóraembættinu í Alaska. Hún segist ekki vilja sitja út kjörtímabilið, af því hún ætli ekki að bjóða sig fram aftur og aðrir ríkisstjórar séu bara í skemmtiferðum þegar þeir hafa ákveðið að segja af sér. Virðist sumsé ekki treysta sér til að hegða sér eins og hún telur rétt. Bandaríska pressan er morandi í fréttum af þessu, þó svo það sé róleg fréttahelgi, enda er þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna í dag og löng helgi þar. Spurningin er þó kannski helst hvort hún sé að hætta eða snúa aftur í landsmálapólitíkina, þar sem hún átti stutta en litríka viðkomu sl. haust.
Kenningarnar um ástæðurnar eru fjölmargar, hér eru 14 tilgreindar. Það virðist vissulega svolítið sérstakt að sleppa embættinu núna ef hún ætlar að bjóða sig fram til forseta, en það gæti þó virkað betur að vera ekki bundin við Alaska í framboðinu. Hún segist ekki vera að hörfa, heldur sækja fram í aðra átt (og fór á sinn einstaka hátt rangt með það í hvern hún væri að vitna).
Ákvörðunin um að hætta í ríkisstjórastöðunni kemur í kjölfarið á harkalegri grein í Vanity Fair, sem má lesa hér. Bill Kristol, einn fárra sem studdi Palin allan tímann sem hún var í framboði til varaforseta, telur að 18 mánuðir í embætti ríkisstjóra dugi ekki til að sannfæra þjóðina um að hún ráði við forsetastarfið. Með því að sleppa embættinu og kynna sig betur gæti hún komist lengra. Þótt yfirlýsing í gær hafi hljómað eins og hún væri að hætta í stjórnmálum, þá fékk hún stuðning frá börnunum sínum við ákvörðunina með því að spyrja þau hvort þau vildu að hún berðist fyrir framtíð allra barna, utan skrifstofu ríkisstjórans. Svörin voru fjögur "yeah" og eitt "hell, yeah".
Það virðist enginn geta áttað sig á því hvernig hún hugsar. Með feitan bókarsamning upp á vasann er einn ólíklegra að hún veiti mörg viðtöl á næstunni. Það eina sem virðist vera ljóst er að hún hættir ekki að koma á óvart. Meira um Palin má lesa á The Atlantic og Time.