3.7.09

hæfniskröfur og jafnrétti

Það hefur löngum tíðkast að auglýsa stöður með lista yfir hæfniskröfur. Kærur á grundvelli jafnréttislaga eru byggðar á orðalagi í auglýsingum, enda gefa þær skýrasta mynd af því hverju atvinnurekandi leitar að. Huglægum þáttum er síðan beitt í röksemdafærslum þegar sýnt er að kærandi (oftar kona) sé þegar til kastanna kemur ekki jafn hæf eða hæfari en sá sem fékk starfið (oftar karl). Þetta er gegnumgangandi mynstur í a.m.k. þeim álitum kærunefndar jafnréttismála sem ég hef lesið og varða mannaráðningar.

Nú er Jafnréttisstofa að auglýsa eftir lögfræðingi, og þá gerir einn helsti lögspekingur landsins (maður sem ég ber mikla virðingu fyrir) athugasemd við orðalagið, þar sem það gæti mögulega átt við aðeins eina manneskju - og þá væntanlega konu! Mig grunar reyndar að hann hafi ekki haft skoðun á þessu fyrr en DV hringdi og spurði, en það skiptir engu. Persónulega þekki ég fjöldann allan af lögfræðingum (aðallega konum) sem hafa tekið kvennarétt og haft afskipti af jafnréttismálum á ólíkum vettvangi.

Það er eitt helsta baráttumálið í jafnréttismálum, að fá þekkingu á þessu sviði viðurkennda sem sérþekkingu. Það eru mun fleiri konur sem hafa lagt stund á kynjafræði, þó ég þekki líka þó nokkra karla sem hafa gert það. Tilraunir til að gera lítið úr þekkingu þeirra eru hluti af tilraunum til að vinna gegn jafnrétti.
Setja á Facebook