5.7.09

Gamli sáttmáli og Icesave

Mér gengur illa að hætta að hugsa um Icesave. Var í gær að ræða við vinkonu mína um samninginn og niðurstöðu hans, og fletti þá upp á Gamla sáttmála, sem ég hef sennilega ekki lesið síðan í sögu í framhaldsskóla. Mér finnst eiginlega svolítið merkilegt að þessum samningi sé haldið á lofti sem mestu mistökum Íslandssögunnar (þ.e. þangað til Icesave kom til), því fullveldi Íslands var varla svo ógnað þar til eftir siðaskipti. Stærstu mistökin, út frá fullveldi landsins, held ég að hljóti að vera Kópavogssamningurinn frá árinu 1662, þegar Ísland samþykkir erfðaeinveldi konungs.

Gamli sáttmáli er algjörlega í takt við samningahegðun Íslendinga í aldanna rás. Þarna hafa Íslendingar gert sér grein fyrir því að þeir ráða ekki við að halda frið í eigin landi. Fá því annan aðila til þess, en krefjast um leið fullra réttinda til að dæma í eigin málum, vilja engar utanstefningar hafa. Lögmenn og sýslumenn eiga að vera af ættum hinna fornu goða. Erfðir skulu upp gefast fyrir íslenskum mönnum í Noregi, ef þeim skyldi detta í hug að láta sjá sig þar. Noregskonungur á að senda sex skip til landsins árlega og tryggja friðinn á Íslandi. Skattheimtan hlýtur að hafa verið allsvakaleg, því annars er illskiljanlegt að konungur hafi gengist inn á þennan samning. Það hlýtur að hafa verið töggur í íslensku samninganefndinni þarna. Verst að þeir sáu ekki fyrir hvernig færi með fullveldið, hafa greinilega ekki verið miklir spámenn.

Í ljósi Gamla sáttmála er kannski ekki skrýtið að í dag vilji margir Íslendingar helst fara dómstólaleiðina - og það hér heima. Það er líka eðlilegt í ljósi þessa samnings að láta íslenska lögmenn sem margir eru tengdir inn í alla spillinguna sem viðgengist hefur hér síðustu árin, halda utan um málaflutning og dómsmeðferð. Ætli við förum ekki líka fram á það að allar eignir dótturfyrirtækja íslenskra fyrirtækja erlendis verði látnar í hendurnar á okkur. Heimtum svo að erlend fyrirtæki komi hingað með fjárfestingar til að koma hagkerfinu aftur á réttan kjöl, sendi sex skip til landsins árlega. Núna ætlum við hins vegar ekki að borga skatta til erlends yfirvalds heldur fá allt fyrir ekkert, eins og okkur einum ber réttur til.
Setja á Facebook