Svipaður bakgrunnur birtist í pistli Nicholas Kristofs á New York Times í dag, en þar segir hann sögu ungrar konu í Pakistan sem var seld í ánauð 16 ára gömul og henni nauðgað í heilt ár af mönnunum sem keyptu hana. Þegar hún slapp og fór til lögreglunnar var henni nauðgað þar af fjórum lögreglumönnum. Í staðinn fyrir að fyrirfara sér, eins og henni hefði borið samkvæmt hefðum samfélagsins til að forða fjölskyldunni frá skömm, valdi hún að kæra til að forða öðrum stúlkum frá sömu örlögum. Þetta gerir hún þrátt fyrir að fjöldi ættingja hvetji hana til að falla frá málinu til að forða fjölskyldunni frá frekari skömm. Nóg er það víst samt.
Þetta er ekkert einsdæmi, skömm vegna kynferðisbrota virðist ótrúlega oft færast á fórnarlambið þótt um mismunandi menningarheima sé að ræða. Svipuð dæmi má finna hérna heima. Þannig vekur Halla Gunnarsdóttir upp umræðu um það á heimasíðu sinni fyrir nokkru, hvers vegna nafn geranda í viðurstyggilegu heimilis- og kynferðisbrotamáli sé ekki birt. Að einhverju leyti má færa rök fyrir því að með því sé verið að vernda konu hans, þar sem nafn hennar yrði opinbert um leið. Halla orðar þetta vel:
Hugmyndin að baki því að birta ekki nöfn allra ofbeldismanna byggir raunar á hinni óþolandi lífsseigu goðsögn að þolandinn beri sjálfur einhverja sök á ofbeldinu og að skömmin eigi heima hjá honum, ekki ofbeldismanninum.Í Gáruþætti mínum um átökin í Kongó fjallaði ég einnig um nauðganir sem vopn í stríði. Ástandið í Líberíu var að mörgu leyti svipað því sem þar um ræðir, en viðvarandi borgarastyrjöld gerði nauðganir að daglegu brauði í lífi margra og þegar átökunum lauk skorti mikið upp á að samfélagið kynni að bregðast við þeim, þótt afgerandi stuðningur við málaflokkinn hafi komið frá forseta landsins, Ellen Johnson-Sirleaf, sem kom fram opinberlega og sagðist sjálf hafa verið þolandi kynferðisofbeldis.
Ójöfn staða karla og kvenna í flestum samfélögum heims er stór þáttur í því að kynbundið og kynferðislegt ofbeldi viðgengst og er viðhaldið. Mannvonska hefur sennilega minnst með það að gera að foreldrar litlu flóttastúlkunnar frá Líberíu hafna henni. Verðmæti stúlkna felst gjarnan í því að þær séu "hreinar" þegar þær giftast, annað er talið að þær hafi fátt fram að færa.* Þetta er að einhverju leyti menningarbundið en það að þolendur kynferðisofbeldis þora oft ekki að kæra sýnir samt að enn eimir eftir af þessum hugsunarhætti t.d. hér á landi, þar sem margir halda því fram að fullkomið jafnrétti ríki, eins og áðurnefnd Halla rifjaði upp 19. júní að Morgunblaðið hafi sagt í leiðara árið 1926. Ég held að það sé enn töluvert í land og útrýming kynjamisréttis sé lykillinn að því að breyta samfélaginu til hins betra.
*Í embættisprófsritgerð sinni við lagadeild HÍ komst Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir t.d. (í nokkurri einföldun og eftir minni) að því að meðan konur voru skilgreindar sem "eign" karla (föður eða maka) voru refsingar fyrir nauðgun mun harðari en þegar konur voru orðnar sjálfstæðir einstaklingar fyrir lögum.