16.7.09

konur í bakgrunni

Ég pirraði mig eitthvað á því hér á mánudagskvöld að lítið hefði sést til kvenna í umræðuþáttum um ESB og Icesave. Nú fara fram lokaræður á þingi um aðildarumsókn að ESB. Hver þingflokkur setur einn fulltrúa upp í pontu. Kemur einhverjum á óvart að þetta séu bara karlar? Ef ekki væri fyrir að konur einar eru í forsætisnefnd þingsins, þá myndi hvorki heyrast né sjást til kvenna í þessari umræðu. Hér situr a.m.k. kona á bakvið karlana í mynd. Þær eru bakgrunnsefni. Þótt ég sé ekki þeirrar skoðunar að möguleg aðild að ESB myndi gerbreyta Íslandi til frambúðar, þá er þetta stórt pólitískt mál. Og skoðanir kvenna virðast ekki skipta máli.

Þetta kemur svosem ekki á óvart. Ég lærði alþjóðasamskipti í litlum skóla í Bandaríkjunum og í deildinni voru mun fleiri karlar en konur, sérstaklega í hópi kennara. Þegar ég svo fór í framhaldsnám varð munurinn enn meira áberandi; í tímum voru konur aldrei meira en þriðjungur nemenda og aftur voru mun færri konur en karlar í hópi kennara. Það skyldi þó aldrei tengjast því að konur fá ekki fyrirmyndir í umræðu um alþjóðamál? Ég bara velti því fyrir mér.
Setja á Facebook