15.7.09

bein útsending

Fyrir fólk eins og mig, sem er á stundum meira þjakað af athyglisbresti en góðu hófu gegnir, þá er sennilega ekki gott að hafa aðgang að beinni útsendingu frá Alþingi. Sérstaklega ekki þegar hún er í gangi næstum allan sólarhringinn. Í dag var þetta sérstaklega óþægilegt, þingfundi var frestað aftur og aftur og sitjandi með útsendinguna í gangi og bók í hönd velti ég því fyrir mér hvað var í gangi sem myndavélin fangaði ekki. Það voru samt nokkur gullkorn á skjánum sem standa upp úr.

Vigdís Hauksdóttir talar um stjórnarskrárbrot í hverju einasta andsvari. Hún vill bjarga tillögunni með því að veita ríkisstjórninni umboð til að fara í aðildarviðræður, en ekki til að sækja um aðild. Ég skil reyndar ekki hvernig við getum farið í aðildarviðræður án þess að leggja inn umsókn, en það kemur kannski í ljós á morgun. Ég dáist að orkunni í henni og þrjóskunni, að nýta sér allan þann rétt sem hún á til að tjá sig um þetta mál. Sem verkefnisstjóri íslensks hluta rannsóknarverkefnis sem fjármagnað er úr 7. rammáaætlun ESB þótti mér líka áhugavert að heyra Pétur Blöndal lýsa því yfir í miklum hneykslunartón að hér væri fjöldinn allur af fólki á launum "hjá" ESB. Ég sem stóð í þeirri meiningu að það væri gott að flytja inn erlendan gjaldeyri á þessum síðustu og verstu. Þegar ég fékk loforð um styrkinn jafngilti upphæðin um 20 milljónum íslenskra króna en í dag jafngildir hann 35-40 milljónum. Þetta er notað til að skapa atvinnu fyrir íslenska fræðimenn. Ég hélt líka að það væri gott. Við ættum kannski að hætta því bara, ekki viljum við þiggja fjármagn frá þessu nýja Sovéti, eins og Árni Johnsen kallaði ESB. Við erum heldur ekki í vinnu "hjá" ESB, en við erum að nota fjármagn sem kemur þaðan til að ráða fólk í vinnu hjá fjársveltri menntastofnun. Talandi um menntastofnanir, þá er Sigmundur Davíð alltaf að læra á þinginu. Hann benti á nýlega að það hefði komið sér mjög á óvart þegar hann byrjaði á þingi því hversu lítið stjórnmálaskýrendur vissu um hvað væri "í raun og veru" í gangi. Þar sem ég gerði nú grín að annarri fræðigrein hérna nýlega, þá er kannski allt í lagi að gera grín að minni eigin. Auðvitað vitum við ekkert um það sem fólk er að hugsa og auðvitað erum við að túlka. Við getum hins vegar tekið orð stjórnmálamanna og sett þau í samhengi við söguna, kenningar og samfélagsaðstæður. Það er meira að segja oft betra að vita ekki hvað fólk er að hugsa, því það eru verkin sem skipta meira máli. Toppurinn á tilverunni í þingumræðunni virðist síðan hafa átt sér stað í kvöld, þegar Þorgerður Katrín talaði um að tilfinningarök skiptu máli í ESB umræðunni. Varaformaður flokksins sem hæddi tilfinningarök allra þeirra sem tengdust landinu sem nú er undir Hálslóni vill núna að tekið sé tillit til tilfinninga hennar. Ég reyndar vona að það verði gert, það er hundfúlt að láta hunsa tilfinningar sínar.

Ég ætlaði ekki að atast sérstaklega í stjórnarandstöðunni hérna, en þar sem þau eru að berjast gegn tillögunni þá er (kannski eðlilega) meiri hamagangur í þeim. Aðrar ræður voru bara litlausari. Að horfa á beina útsendingu frá Alþingi er sumsé bæði fræðandi og hin besta skemmtan. Ég tók mér samt frí frá þinginu í þrjá klukkutíma í kvöld og fór í bíó. Mæli eindregið með Harry Potter og blendingsprinsinum, nærri þriggja tíma stanslaust stuð og ég er ekki frá því að það sé uppbyggilegra en að horfa á þingið. Í Harry Potter má nefnilega alltaf treysta því að hið góða sigri að lokum.
Setja á Facebook