6.7.09

innistæðutryggingar og eftirlit

Mikið hefur verið fjallað um viðtal við fyrrum (borgarstjóra, forsætisráðherra og) seðlabankastjóra í Morgunblaðinu í gær. Þar vísar hann í skýrslu OECD, sem gæti svo sem enn fundist, en enginn kannast við. Það sem hann virðist vera að tala um er skýrsla frá franska seðlabankanum um reynslu Frakka af innistæðutryggingum. Í skýrslunni er (bls. 177) talað um að innistæðutryggingakerfi séu mikilvægur þáttur í því að tryggja stöðugleika fjármálakerfa. Seinna (bls. 179-180) er sagt að það sé vitað að innistæðutryggingakerfum sé ekki ætlað, né geti þau, tekist á við kerfishrun. Við kerfishrun færist ábyrgðin á hendur annarra hluta öryggisnetsins, þ.e. eftirlits, seðlabanka eða ríkisstjórna. Ekkert sem kemur á óvart þarna. En við lestur skjalsins er annar frasi sem mér þykir áhugaverður, og það er fyrr á bls. 179, þar sem segir að markvirkni (e. effectiveness) innistæðutryggingakerfa byggi jöfnum höndum á því að hve miklu leyti það henti staðbundnum kerfum, hvort heldur er efnahagur, löggjöf, bókhald eða annað.

Því er gjarnan haldið fram að bresk og hollensk yfirvöld hafi átt að fylgjast með og þau beri ábyrgð á því hví fór sem fór. Þó held ég að hagfræðingarnir Jón Daníelsson og Gylfi Zoega hafi haft rétt fyrir sér í grein sem þeir skrifuðu í vetur, en þar segja þeir (bls. 12): "Íslensk stjórnvöld eru líklega eini eftirlitsaðilinn sem hafði einhverja heildarsýn yfir starfsemi íslensku bankanna. Ef svo er þá brást eini eftirlitsaðilinn sem bjó yfir nægjanlegum upplýsingum." Framar í sömu grein (bls. 7) segja þeir að vegna "þess að Ísland var aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og tók upp regluverk Evrópusambandsins um fjármálamarkaði þá er ... fremur um að ræða eftirlitsbrest en reglubrest." Ef Frakkarnir hafa rétt fyrir sér má álykta sem svo að íslenska eftirlits- og tryggingakerfið hafi ekki verið sniðið að starfsemi íslensku bankanna, og þess vegna hafi það brostið. Önnur ríki í EES búa við sama gallaða regluverkið, en hafa ekki lent í sömu aðstæðum þar sem þau hafa stoppað í götin á því.
Setja á Facebook