2.7.09

að meðaltali fínt

Tölfræðibrandarar voru vinsælir þegar ég var í háskóla, þó ég viti ekki alveg af hverju. Einn gekk út á það að tölfræðingar myndu halda því fram að maður sem var með annan fótinn í ísfötu og hinn í sjóðandi vatni hefði það að meðaltali fínt. Þetta datt mér í hug áðan þegar ég sá viðtal við forstjóra (Group Chairman) HSBC bankans. Hann vildi meina að kreppan gæti skánað ef Asíubúar lærðu að eyða meira og spara minna, en Bandaríkjamenn spara meira og eyða minna. Jafnframt taldi hann fráleitt að bankar væru of stórir og enn vitlausara að reyna að setja einhverjar reglur um þá núna þegar allt væri í uppnámi. Ég held að það sé einmitt núna sem það ætti að setja reglur, og vísa aftur í þessa grein frá því í mars, sem leggur áherslu á að einmitt núna eigi að setja reglur, því bankarnar (hagsmunaaðilarnir) geti ekki stjórnað þeim og skapað aftur regluverk sem verður svo veikt að þeir fá að komast upp með hvað sem er.
Setja á Facebook