Það er fundarherbergi í utanríkisráðuneytinu sem er gjarnan kallað fiskabúrið. Þar munu eflaust verða teknar margar ákvarðanir varðandi aðildarviðræður Íslands við ESB. Það er samt ekki fiskabúrið sem ég er að hugsa um núna, heldur fiskabúr sem mér skilst að hafi verið í anddyri Vesturbæjarlaugar í "gamla daga". Ég er alin upp úti á landi og man ekki sjálf eftir þessu, en þar sem ég bý nokkurn veginn í næsta húsi við laugina fer ég þangað reglulega núna. En nú hefur verið tekin upp söfnun (sjá hér á Facebook) til að koma upp nýju fiskabúri. Hver og einn getur lagt sitt af mörkum, smá framlag frá hverjum og einum getur haft áhrif. Þetta er reyndar eitt af því sem þessi blessaða kreppa hefur gert betra í samfélaginu, fólk lætur sér detta í hug alls kyns smáhluti sem gefur hversdagsleikanum lit.
Í Bandaríkjunum þekkti ég marga sem létu 10% af tekjum sínum af hendi rakna beint til kirkjunnar sinnar. Það var þeirra félagsnet, velferðarkerfi ef eitthvað kæmi upp á. Mig langar ekki að búa við svoleiðis kerfi, en það mætti kannski finna einhvern milliveg, þar sem við leggjum öll eitthvað á okkur til að gera nágrennið litríkara, skemmtilegra, jákvæðara. Fyrir þau sem nota Vesturbæjarlaug og vilja hressa aðeins upp á hana er tilvalið að hringja í:
* 901-5005 til að gefa 500 kr
* 901-5006 til að gefa 1500 kr
* 901-5007 til að gefa 2500 kr
eða upphæð að eigin vali með því að leggja inn á 0311-26-54050, kt 540509-1070. Það er Mímir - vináttufélag Vesturbæjar sem stendur fyrir söfnuninni.