23.7.09

ESB og VG - og ESB almennt

Mér hefur verið nokkuð skemmt yfir umræðum (kannski sérstaklega moggabloggum) um hin hræðilegu svik Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs við kjósendur sína eftir að átta þingmenn VG studdu aðildarumsókn Íslands til Evrópusambandsins. Það eru reyndar ekki til tölur um þá sem kusu VG í síðustu kosningum, en í febrúar á þessu ári voru 37,6% þeirra sem sögðust þá ætla að kjósa VG hlynnt aðild, ekki bara aðildarviðræðum (það voru 55,5% þeirra sem ætluðu að kjósa VG). Í bloggheimum mætti þó ætla að enginn hafi kosið VG nema á þeirr forsendu einni að flokkurinn væri andsnúinn Evrópusambandsaðild. Það er vissulega stefna flokksins, að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan sambandsins en innan, en hinn almenni kjósandi flokksins virðist m.v. þessi gögn alls ekki byggja ákvörðun sína á þessari afstöðu. En það heyrist auðvitað ekkert endilega í þeim sem eru tilbúin til að skoða málin heldur mest í þeim sem harðasta hafa afstöðuna.

Hvað ESB aðild varðar, þá er annað sem mér þykir athyglisvert. Samtök iðnaðarins hafa gert kannanir reglulega síðustu árin, t.d. er til á vef þeirra samantekt á þróun afstöðu Íslendinga til aðildarviðræðna og aðildar árin 2000-2008 þar sem sömu aðferðafræði er beitt. Sumir vilja meina að kreppan hafi gert Íslendinga hallari undir aðild, en það vantar einmitt öll gögn þess efnis. Síðasta könnun sem ég fann í fljótu bragði í dag var einmitt könnun SI frá því í febrúar, og þá hafði þeim fjölgað um 6,2 prósentustig sem vildu fara í viðræður,* en fækkað um 9 prósentustig sem voru hlynnt aðild að ESB. Ég hefði haft virkilega gaman af því að sjá könnun um áhuga Íslendinga á aðild í kringum tímann sem umsóknin var samþykkt á þingi.

*Í ljósi umræðna í kringum aðildarumsóknina, þá er best að hafa það á hreinu að í könnuninni er alltaf spurt um aðildarviðræður, ekki könnunarviðræður.
Setja á Facebook