25.6.09

valkostur í Icesave

Ég var að ræða við breskan kollega minn búsettan í Hollandi í gær, úti í sólinni fyrir utan Norræna húsið, meðan við biðum eftir öðrum sem ætluðu að borða með okkur. Icesave barst vitanlega í tal og ég fór að pirra mig á því hversu algengt það viðhorf er að við komumst upp með að borga ekki. Þessi kollegi minn er hagsagnfræðingur og var að kenna um efnahagslegt öryggi í námskeiði hjá okkur um öryggi smáríkja.

Þegar ég sagði að ég skildi ekki hvernig fólk teldi að það væri raunverulegur valkostur að borga ekki, sagði hann: "Auðvitað er það valkostur. Ef þið viljið lifa við lífskjör eins og þau voru fyrir 100 árum, eða kannski eins og Albanía á áttunda eða níunda áratugnum, þá getið þið sleppt því að borga. Þið getið lokað landamærunum, vitandi það að þið fáið ekki krónu í lán frá neinum í ansi mörg ár, og lifað á því sem þið framleiðið sjálf. Fólk gleymir oft að þetta sé valkostur."

Ég verð að viðurkenna að ég hafði rangt fyrir mér. Þetta er auðvitað valkostur. Bara ekki sá sem ég kýs.
Setja á Facebook