21.6.09

Twitter í Teheran

Tveir af mínum uppáhaldskennurum í BA-námi voru Persar. Þeir tóku það alltaf mjög skýrt fram, eins og flestir Íranir sem búa í Bandaríkjunum, vildu ekki kenna sig við klerkaveldið Íran. Annar fluttist frá Íran í kringum 1950 og kenndi einn kúrs á ári þrátt fyrir að vera kominn á eftirlaun. Hann lýsti menningarsjokkinu sem hann fékk þegar hann flutti til Bandaríkjanna á mjög skemmtilegan hátt og eitt dæmið situr alltaf í mér. Herbergisfélagar hans á heimavistinni í háskólanum spurðu hann, eins og gengur og gerist, út í bakgrunn hans. Hvað gerðu foreldrarnir, hvað átti hann mörg systkin og þar fram eftir götunum. Nos þessi (Nosratollah hét hann) var mikill húmoristi og sagði að pabbi sinn seldi notuð fljúgandi teppi. Skrýtnast fannst honum þegar herbergisfélagarnir trúðu þessu. Segir sitt um upplýsingaflæði milli Mið-Austurlanda og Vesturlanda á þessum tíma, og um fáfræði Vesturlandabúa.

Mér verður oft hugsað til Nos þegar fréttir berast frá Íran. Hvað skyldi vera satt, hvað logið eða hreinlega litað af sýn vestrænna fréttamanna. Áhugaverðir punktar hér, um muninn t.d. á Facebook og Twitter, þar sem hægt er að loka fyrir aðgang að Facebook en skilaboð á Twitter er hægt að senda á fjölda máta.

Annað sem þessi grein að ofan rifjaði upp fyrir mér er hversu mikið boðskiptatækni breytist í kringum átök. Útvarp, sjónvarp, og net hafa tekið stökkbreytingum að loknum stórum átökum í heiminum. Prenttækni studdi við uppreisnir á sínum tíma. Andspyrnuöfl og stjórnvöld nota núna ólíka miðla til að koma skilaboðum sínum á framfæri. Fulltrúar í utanríkisþjónustum nokkurra ríkja hafa sagt mér að þeim sé ætlað að vera á Facebook og hægt er að fylgjast með uppfærslum ýmissa stjórnvalda á Twitter. Þess vegna fannst mér áhugavert, ef satt er, að það hafi þurft Hörð Torfason að endurtaka upplýsingar sem komu fram fyrr í vikunni til að fjármálaráðherra sýni staðfestingu á því að Bretar og Hollendingar hafi ekki viljað birta Icesave samningana. En hann birtir ekki upplýsingarnar á eigin síðu, heldur lætur manneskju úti í bæ fá útprent, sem hún svo setur á bloggsíðu sína. Væri ekki eðlilegra að þessar upplýsingar, fyrst á að birta þær á annað borð, komi fram á vef stjórnvalda? Væri það síður tekið trúanlegt af þeim sem draga í efa getu eða vilja stjórnvalda til að bæta stöðuna?
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment