15.6.09

tækifæri í krísum

Hugmyndir um að í krísum felist tækifæri eru ekki nýjar af nálinni og mig langar svosem ekkert til að bera í bakkafullan lækinn með það. Ég benti ítrekað á það þegar ég var að vinna að norrænu verkefni um kynjaða hagstjórn, að þau ríki sem hefðu náð árangri með verkefni af þeim toga hefðu hafist handa eftir samfélagshrun. Í kjölfarið sagði ég gjarnan að það sem okkur vantaði sennilega, til þess að koma þessu í góðan gír hér heima, væri hrun eða bylting. Það er víst gott að gæta að því hvers maður óskar sér, því óskin gæti ræst! En þrátt fyrir að fjármálaráðherra hafi skipað nefnd sem á að vinna að innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar hér á landi er fjölmargt sem eftir á að breyta. Eitt af því sem enn vantar upp á er að tryggja aðkomu beggja kynja að uppbyggingu íslensks samfélags, þótt umtalsverð fjölgun kvenna á þingi hafi vakið vissar vonir hjá mér.

Í ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi frá árinu 2000 er fjallað um nauðsyn þess að konur komi að endurreisn samfélaga eftir átök, til jafns á við karla. Við vorum nokkur sem ræddum það og bentum á strax í haust að líta ætti til þessarar ályktunar við uppbyggingu íslensks samfélags, enda fjallar ályktunin um það hvernig megi breyta verkferlum og viðhorfum þegar svona hrun verður.

Við skipan í rannsóknarnefnd Alþingis fannst mér athyglisvert að tiltekið var úr hvað tveimur embættum einstaklingar áttu að koma sem skipuðu meirihluta nefndarinnar. Þar með varð sjálfgefið að einn karl yrði í nefndinni og umtalsverðar líkur á að þeir yrðu a.m.k. tveir þar sem karlar eru mun fleiri í hópi hæstaréttardómara. Þriðja aðilann í nefndinni átti að velja á grundvelli ákveðinnar menntunar og færni, ekki á grundvelli þess í hvaða embætti hann eða hún sæti. Þarna gafst loksins tækifæri til að breyta einhverju og þarna gafst eina færið á að skipa konu í nefndina.

Verkferlarnir og viðhorfin virðast þó ekkert hafa breyst; karlinn í embætti ríkissaksóknara situr sem fastast þrátt fyrir hagsmunatengsl og allskyns ummæli. Mikið er talað um hversu almennilegur maður þetta sé og ekkert spáð í þeim áhrifum sem það hefur að hann bara sé á skrifstofunni. Konan í rannsóknarnefndinni neitar að víkja fyrir ein ummæli sem eftir henni eru höfð. Hún á að komast að sannleiknum, ekki kæra neinn. En hún er ekki með sama tengslanet og hann, svo hún fær ekki sömu vernd.

Þegar áföll ganga yfir skapast tækifæri til að endurskoða ráðandi gildismat og kerfi. Missum ekki af tækifærinu til þess að nýta hæfileika kvenna. Þau sem vilja læra meira um ályktun 1325 ættu að kíkja á ráðstefnu í HÍ á föstudag, sjá nánar hér.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment