Það var mikið rætt strax í kjölfar hrunsins, a.m.k. í mínum vinahópum og vinnustað, að ekki dygði annað en að fá erlenda sérfræðinga til að aðstoða við rannsóknina á því sem gerðist. Fjölskyldu- og vinatengsl væru það mikil í íslensku samfélagi að ekki væri hægt að trúa hlutleysi nema utanaðkomandi aðilar kæmu að rannsókninni. Ráðning Evu Joly var hluti af því að stíga það skref.
Mér fannst ánægjulegt að sjá þessa frétt í gær, um að Björn Bergsson yrði skipaður ríkissaksóknari í öllum málum sem varða hrunið, einmitt meðan ég horfði á Kastljóssviðtalið við Evu Joly. Um leið velti ég því fyirr mér hvort þetta nægði til að tryggja að hún héldi áfram, þar sem þær kröfur sem hún setti fram gengu lengra. Hún telur óeðlilegt að núverandi ríkissaksóknari sitji áfram yfir höfuð. Hann segist hafa beðist lausnar í málum tengdum hruninu fyrir nokkru síðan, en það er ekki það sem hún er að fara fram á. Þá segir hún að nauðsynlegt sé að setja meiri peninga og mannafla í rannsóknina. Hvorugri kröfunni hefur verið brugðist við, en dómsmálaráðherra segist þó taka gagnrýninni alvarlega.
Ef við ætlum að fá á hreint hvað gerðist, finna út hvar sökin á heima, þá verðum við að leggja vinnu í að rannsaka. Rannsóknin kostar peninga. Ráðleggingar Evu Joly hljóma skynsamlega í mínum eyrum. Ég vona að við þeim verði brugðist. Við höfum ekki efni á að spara í þessu máli.
Bendi að lokum á frábæra samantekt Láru Hönnu um þetta mál. Dáist að orkunni í henni að halda saman öllum þessum gögnum, sem eiga eftir að verða frábær heimild um hrunið þegar fram líða stundir.
11.6.09
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
0 comments:
Post a Comment