4.6.09

A til B, Al Azhar til Buchenwald

Mikið hefur verið fjallað um ræðu Baracks Obama í Kaíró í morgun og áherslan einkum verið á það hversu miklu máli skipti að forseti Bandaríkjanna haldi lykilræðu í einni af stórborgum íslamskrar menningar. Reyndar hafa einhverjir dregið í efa að þetta sé rétti vettvangurinn, því bæði eru Arabalöndin orðin heimkyni töluverðs minnihluta múslima í heiminum, og Kaíró sérstaklega hætt að vera sú valdamiðstöð sem borgin var upp úr miðri síðustu öld. Obama lagði áherslu á sjö atriði í ræðu sinni, baráttu gegn ofstæki og ofbeldi, málefni Palestínu og Ísraels, kjarnorkuvopn, lýðræði, trúfrelsi, kvenréttindi, og að lokum þróun og efnahagsleg tækifæri.

Nokkur þessara áhersluatriða vekja sérstakar spurningar um staðarvalið. Egyptaland er fjarri því að vera umburðarlynt lýðræðisríki. Þegar svínaflensan greindist gripu stjórnvöld tækifærið og létu (eða reyndu að láta) slátra öllum svínum í landinu, en kristnir bændur rækta þau. Trúfrelsi sumsé í orði, en kannski ekki alveg í framkvæmd. Þá voru 200 erlendir nemendur í Al Azhar háskólanum handteknir og haldið án dóms og laga fyrir komu Obama. Ekki beint lýðræðislegt. Pólitískt islam er ekki ráðandi, en í nágrannaríkjum eru konur myrtar fyrir að vera nauðgað. Egypsk stjórnvöld skipta sér ekki af og þar deyja stúlkur af völdum afskurðar. Réttindi kvenna ekki í hávegum höfð. Ræðan er þó merk fyrir ýmissa hluta sakir. Í henni byggir Obama á ræðu sem hann hélt í Ankara fyrr á árinu, þar sem hann talaði um nauðsyn þess að Bandaríkjamenn sýndu múslimum virðingu, eitthvað sem mikið skorti upp á í valdatíð George W. Bush.

Það skorti ekki á fagurgalann og ég trúi því að orð séu til alls fyrst. Margt af því sem kom fram í ræðunni er þó frekar ólíklegt að verði á næstunni. Obama fetar einstigi þar sem hann reynir að tryggja það að ganga ekki svo langt að neinn móðgist. Þá er oft betur heima setið en af stað farið. Þegar hann fjallaði um réttindi kvenna lagði hann áherslu á að bandarísk stjórnvöld verðu rétt múslimskra kvenna til að ganga með hijab, en að auðvitað ættu þær að hafa rétt til að mennta sig samt. Engin ríkisstjórn getur þvingað lýðræði upp á aðra, segir hann þegar hann ræðir um Írak og lýðræði. En í lokaorðunum talar hann, eins og í byrjun, um sameiginlega ábyrgð okkar á því að gera heiminn að betri stað. Það er stórt skref fram á við í samskiptum bandarískra stjórnvalda og annarra ríkja.

Eitt mikilvægasta skrefið í að axla þá ábyrgð er að hafna áframhaldandi hersetu Ísraels í Palestínu. Á morgun verða liðin 42 ár frá því að sex daga stríðið milli Ísraels og nágrannaríkja þess hófst, en það stríð leiddi til hernáms á Palestínu sem enn varir og hefur valdið þjáningum og togstreitu alla tíð síðan. Ísrael lét Sínaí-skagann eftir til Egypta í Camp David samningunum, en hefur að öðru leyti haldið þeim. Fyrrum utanríkisráðherra Ísraels, Abba Eban, kallaði landamærin þar á undan Auschwitz-landamæri, og átti þá við að þau þýddu ekkert nema endalok ríksins. En draumurinn um stór-Ísrael er botnlangi. Múslimum fjölgar hraðar en gyðingum innan landamæra Ísraels og ef Palestína fær ekki sjálfstæði getur Ísrael ekki þóst vera gyðinglegt lýðræðisríki. Það voru einhverjar vísbendingar í ræðunni um að Bandaríkin myndu nú veita Ísraelum aðhald, frekar en að leyfa þeim að gera það sem þeim sýnist. Obama fer á morgun til Buchenwald, þar sem hann minnist gyðinga sem létu lífið í helför nasista. Það gæti verið hugsað til að tryggja að Ísraelum finnist þeir ekki vanræktir eftir þessa áherslu á múslimaríkin og jafna út tiltölulega skýrar orðsendingar í ræðunni.

Ræðu Obama í heild sinni má sjá hér.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment