Tilnefning Obama á Soniu Sotomayor til hæstaréttar Bandaríkjanna er athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Hún yrði einungis þriðja konan til að gegna embætti hæstaréttardómara þar í landi og fyrsti dómarinn af latneskum uppruna. Hún er oft borin saman við Obama sjálfan, þar sem hún kemur úr litlum efnum en sótti sér menntun á skólastyrkjum í einhverja bestu skóla Bandaríkjanna. NY Times hefur birt nokkrar áhugaverðar greinar um hana og hvernig hún varð fyrir valinu sem fyrsti kandídat Obama til Hæstaréttar. Hér er fjallað um það hvernig var tryggt að engu yrði lekið út úr Hvíta húsinu sem mætti túlka sem sundrungu um tilnefninguna. Það var greinilega verið að leita að manneskju með ákveðinn prófíl í stöðuna og það var byrjað að leita áður en Souter tilkynnti að hann myndi segja af sér. Aldur, reynsla, sjálfstæði, sjálfstraust og margbreytileiki voru lykilbreytur - og margbreytileiki þýðir að kyn og kynþáttur skiptu miklu máli.
Mér finnst Sotomayor þrælskemmtilegur kandídat í Hæstarétt. Hún var skipuð dómari í NY af George Bush eldri, þótt ábendingin hafi komið frá demókrata, og varð fyrsti dómarinn af latneskum uppruna í ríkinu. Árið 1995 lauk hún hafnaboltaverkfallinu í Bandaríkjunum með úrskurði sínum, leikmönnum í vil, og var eftir það kölluð bjargvættur boltans. Hún dæmt í nokkrum áhugaverðum málum er varða trúfrelsi en hefur sjaldan tekið á málum sem gjarnan koma í veg fyrir staðfestingu dómara og varða gjarnan fóstureyðingar. Hún hefur talað um að hún hljóti að dæma öðruvísi en flestir dómarar, þar sem hennar reynsluheimur er mótaður bæði af kyni hennar og kynþætti. Hún hefur líka sagst upplifa það að tilheyra ekki að fullu heiminum sem hún býr í, enda er hún dæmi um manneskju sem upplifir tvöfalda mismunun vegna einkenna sinna.
Hægrimenn ku vaða uppi í heilagri vandlætingu vegna tilnefningarinnar. Þeir kalla hana kynþáttahatara (Latina woman racist frá Newt Gingrich er í uppáhaldi hjá mér) og draga gáfnafar hennar í efa (Karl Rove segir að fullt af heimsku fólki hafi farið í góða skóla, en hefur áður sagt að George W. Bush hljóti að vera klár af því hann gekk í svo góða skóla). Jeffrey Rosen ræddi við fjölda fólks um Sotomayor og segir í lokin að þótt hann hafi ekki lesið dómana hennar telji hann hana ekki hæfa. Bob Herbert hins vegar bendir á hversu mikilvægt sé að binda endi á þá útilokun minnihlutahópa sem hefur einkennt hæstarétt Bandaríkjanna. Ef fólk á borð við Sotomayor er ekki hæft til að gera það, þá geta fáir uppfyllt kröfurnar.
Mér finnst reyndar svolítið skondin "tilviljun" að Sotomayor sé barnlaus, en fyrstu tvær konurnar sem Clinton vildi fá í embætti dómsmálaráðherra* fengu ekki staðfestingu þar sem þær höfðu greitt barnapíum laun án þess að greiða af þeim skatta. Konur í toppstöðum hjá honum voru því oftast annað hvort með fullorðin börn eða barnlausar. Enn hefur karlmaður ekki lent í þeim vanda.
*Leiðrétt eftir ábendingu frá Ármanni, hafði upphaflega skrifað hæstaréttardómara.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
0 comments:
Post a Comment