10.6.09

Að sverta sendiboðann

Ég held að það velkist fáir í vafa um það hér á landi að óhófleg græðgi og ofmetnaður hafi verið meðal þeirra þátta sem leiddu til hrunsins síðastliðið haust. Gallað regluverk og margt fleira spilaði inn í, en ekki er hægt að kenna lagaumhverfinu einu um. Íslensk fyrirtæki nýttu sér þau göt sem voru í kerfinu og niðurstaðan er sú að íslenska hagkerfið lagðist saman. Bankakreppa er staðreynd í mörgum öðrum ríkjum. Samfara henni hafa þau þó ekki lent í gjaldeyriskreppu eins og við stöndum frammi fyrir.

Ég játa það fúslega að ég er ekki stjórnsýslusérfræðingur. Ég get þó ekki með neinu móti séð að það sé brottrekstrarsök að Sigríður Benediktsdóttir, nefndarmaður í rannsóknarnefnd um hrunið, hafi sagt það sem ég held að flestir Íslendingar hafi hugsað og orðað það mjög almennt. Það, að hún hafi verið beðin um að segja af sér af persónulegum ástæðum finnst mér, ef satt reynist, hins vegar algjört hneyksli. Þetta rifjar upp fyrir mér þegar varðhundar kerfisins stukku á athugasemdir Evu Joly um að hún væri viss um að menn hér á landi hefðu misnotað aðstöðu sína fyrir hrun og reyndu þar með að gera störf hennar tortryggileg. Ég get ekki dregið aðra ályktun en þá að aðilar sem komu að þessum athugasemdum óttist niðurstöðurnar og reyni að sverta þá sem þeir telja ekki sér vinveitta og nú eru í áhrifastöðum. Þeir þora kannski ekki að drepa sendiboðann, en reyna þó að ata hann aur.

Ég hlustaði á prýðilegan fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar í hádeginu í dag. Þar sagði hann aðspurður að hann hefði notað fjölda ónefndra heimildamanna við ritun bókar sinnar, Hrunið, vegna þess að við á Íslandi hefðum tilhneigingu til að afskrifa skoðanir ákveðins fólks, ekki út af því sem það segði heldur hvert það væri. Dæmin hér að ofan finnst mér lykta af slíkri hegðun. Ég hef vissulega gert mig seka um hana sjálf, það er til fólk sem ég tek ekkert mark á út af því sem ég hef heyrt og séð það gera. Þetta er eitt af því sem ég vona að við reynum að læra af og breyta í Íslandi framtíðarinnar - og jafnvel nútímans.


Um hæfi nefndarmanna segir annars í lögum um rannsóknarnefndina:
Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir sömu reglum og fram koma í 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ber nefndarmanni að víkja sæti að því marki sem hann tengist einstaklingi, stofnun eða einkafyrirtæki sem rannsókn nefndarinnar beinist að.
Nefndin skal birta opinberlega upplýsingar um hlutabréfaeign nefndarmanna í fjármálafyrirtækjum sem aðgerðir stjórnvalda samkvæmt lögum nr. 125/2008 hafa tekið til, skuldir þeirra við þau, svo og starfsleg tengsl þeirra, maka þeirra og náinna skyldmenna þeirra við þá sem sinnt hafa stjórnunarstörfum í umræddum fjármálafyrirtækjum eða þeim stofnunum ríkisins sem rannsókn nefndarinnar beinist að. Sama gildir um önnur atriði sem haft geta áhrif á sérstakt hæfi nefndarmanna. Upplýsingar þessar skulu miðast við síðastliðin fimm ár fyrir gildistöku laganna, fjárhæðir sem eru yfir fimm milljónir króna og einnig eignarhluta umfram þá fjárhæð í félögum sem átt hafa hluti í umræddum fjármálafyrirtækjum 1. september 2008.
Starfsmaður eða nefndarmaður er vanhæfur til meðferðar máls:
1. Ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila.
2. Ef hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar.
3. Ef hann tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti sem segir í 2. tölul.
4. Á kærustigi hafi hann áður tekið þátt í meðferð málsins á lægra stjórnsýslustigi. Það sama á við um starfsmann sem fer með umsjónar- eða eftirlitsvald hafi hann áður haft afskipti af málinu hjá þeirri stofnun sem eftirlitið lýtur að.
5. Ef málið varðar hann sjálfan verulega, venslamenn hans skv. 2. tölul., næstu yfirmenn persónulega eða stofnun eða fyrirtæki í einkaeigu sem hann er í fyrirsvari fyrir.
6. Ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

Eigi er þó um vanhæfi að ræða ef þeir hagsmunir, sem málið snýst um, eru það smávægilegir, eðli málsins er með þeim hætti eða þáttur starfsmanns eða nefndarmanns í meðferð málsins er það lítilfjörlegur að ekki er talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvörðun.
Sjötta tölulið hér að ofan mætti e.t.v. reyna að túlka þannig að aðstæður séu til að draga óhlutdrægni Sigríðar í efa, en ég held að sá varnagli sem sleginn er í lokamálsgreininni hljóti að eiga við.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment