29.6.09

að eiga vatn

Var að lesa um breytingar á vatnalögum í Colorado, og öðrum ríkjum í vesturhluta Bandaríkjanna. Rigning þar er af skornum skammti og það getur verið fokdýrt að vökva garða. Þar hafa ca. aldargömul lög gilt um rétt til vatns, sem hafa gert það að verkum að fólk hefur verið að brjóta lög með því að safna regnvatni. Þú þarft nefnilega að eiga rétt til grunnvatns á lóðinni sem húsið stendur á, til að eiga réttinn til regnsins sem fellur á þakið.

Þetta minnti mig á jórdanskan fræðimann sem ég tók viðtal við fyrir BA-ritgerðina mína fyrir margt löngu, en hún fjallaði um áhrif ferskvatns á deilur milli Ísraela og Palestínumanna. Þessi jórdanski hafði verið að ræða upptök vatns við tyrkneskan kollega og hafði sagt í framhjáhlaupi "En auðvitað kemur vatnið frá Guði," og bent til himins. Sá tyrkneski varð þá óður og uppvægur, og hrópaði "Nei, vatnið kemur frá Tyrklandi."
Setja á Facebook