11.5.09

mæðradagsstjórnin

Ég hef ekki enn orðið vör við að nýja stjórnin hafi fengið viðurnefni sem loðir við hana. Maístjórnin hefði mér þótt viðeigandi ef hún hefði tekið við 1. maí, en síður núna þar sem flestar ríkisstjórnir síðustu árin hafa tekið við í maímánuði. Mæðradagsstjórnin hefur heyrst hér og þar og meðan ég vonaðist enn til að hlutur kynjanna yrði jafn í ríkisstjórninni var ég hrifin af því. Svo reyndist ekki verða, svo nú er spurning hvort þetta festist samt eða hvort það verður síðari tíma ákvörðun sem ræður, eins og t.d. Evrópustjórnin, komi til þess að samþykkt verði að fara í aðildarviðræður.

Ég er um margt ánægð með þessa stjórn. Þetta er í fyrsta sinn síðan ég fékk að kjósa sem vinstri flokkar hafa fengið meirihluta þingsæta, og auðvitað í fyrsta sinn sem tveir vinstri flokkar fá meirihluta. Hér er líka um að ræða tvo flokka sem byggja, beint og óbeint, á rauðsokkahreyfingunni, kvennaframboðinu og Kvennalistanum og arfleifð íslenskrar kvennabaráttu. Þess vegna fagnaði ég því mjög í gær að í samstarfsyfirlýsingu flokkanna skyldu kynja- og jafnréttissjónarmið vera fléttuð inn í ríkisfjármál, utanríkismál, atvinnumál og lýðræðis- og mannréttindamál. Þetta er í anda samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða og er veruleg breyting frá því sem tíðkast hefur í stjórnarsáttmálum, þar sem oftast hefur verið vikið að jafnrétti kynjanna í einni línu eða svo. Svo verður spennandi að sjá hvaða áhrif það hefur að færa jafnréttismálin undir forsætisráðuneytið, hvort það dugar til þess sem við höfum mörg í hópi femínista vonast til, að gera málaflokkinn miðlægari og áhrifameiri í stjórnkerfinu.

Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna segir að áhrif kvenna í endurreisninni verði tryggð. Því mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að jafna hlutfall kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og grípa til sértækra aðgerða sé þess þörf. Þetta stóð ríkisstjórnin ekki við í sinni fyrstu aðgerð, þ.e. við skipun ráðherra í embætti. Því má velta fyrir sér hvort að ríkisstjórnin sé ekki eitt af sviðum samfélagsins, eða hvort ekki eigi að fara eftir kvenfrelsisákvæðum samstarfsyfirlýsingarinnar. Stjórnarflokkarnir og þingið gengu ítrekað gegn anda jafnréttislaganna í valdatíð 100 daga stjórnarinnar. Í sínu fyrsta verki sýnir nýja stjórnin sömu vinnubrögð. Ég veit ekki hvernig þetta fór fram hjá Samfylkingunni, en þar sá ég að ráðherralistinn hefði verið samþykktur áður en fundi VG lauk. Á flokksráðsfundi VG var hins vegar eftirfarandi ályktun samþykkt: "Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs beinir þeim tilmælum til formanns flokksins að tryggja jöfn kynjahlutföll í nýrri ríkisstjórn." Formaður VG baðst afsökunar fyrirfram, þegar hann kynnti ráðherralista flokksins, því nú væri ríkisstjórnin ekki skipuð jafn mörgum konum og körlum. Ég vona að þetta sé ekki fyrirboði um það sem koma skal hjá þessari stjórn.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment