Femíníski rithöfundurinn og fræðikonan Marilyn French lést um helgina. Hún skilgreindi sig alltaf sem femínista, en bendir á þrjá hluti sem urðu til þess að hún varð róttæk: skilnað, lestur bókarinnar Sexual Politics og nauðgun dóttur hennar. Femínismi, sagði hún, er bara það að telja konur og karla vera jafn mikils virði. Karlar hins vegar, fannst henni ófærir um að líta á sig sem jafningja kvenna. Ef þeir væru ekki merkilegri hlytu þeir að vera ómerkilegri.
Marilyn French lauk BA og MA námi fyrir hjónaband, en eftir skilnaðinn fór hún í doktorsnám og lauk doktorsprófi frá Harvard, fráskilin tveggja barna móðir, um miðjan áttunda áratuginn. Það er skondið að hugsa til þess, að skömmu síðar - þegar hún gaf út bók sína Kvennaklósettið, var hún talin hættulegasta kona í heimi. Hún kenndi jú konum að gagnrýna kynjakerfi samfélagsins og samþykkja ekki stofnanir þess bara af því þær væru hefðbundnar. Hún kenndi körlum hiklaust um stöðu kvenna í heiminum. Meira að segja þeim sem ekki misnotuðu konur og mismunuðu þeim, heldur bara græddu á veikari stöðu kvenna. French gaf nýlega út bók sem var e-s konar framhald af Kvennaklósettinu. Þegar hún var að reyna að koma bókinni á framfæri var henni bent á að skrifa frekar eitthvað í stíl við Bridget Jones' Diary. Hún tók lítið mark á því, enda var bókin einmitt um það hversu langt femínismi hefði komist á þeim þrjátíu árum sem voru liðin frá því fyrri bókin kom út, og hvað væri eftir í baráttunni. Í viðtali við The Independent fyrir tveimur árum sagðist hún enn vera reið, enda væri reiðin til margra hluta nytsamleg. Mér líður betur að heyra það!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
0 comments:
Post a Comment