5.4.09

það viðrar þó betur í Úkraínu

Ég sat á spjalli við vinkonur mínar á ráðstefnunni í gær, þar sem kreppan á heimsvísu var tekin í gegn. Íslendingur, Eistlendingur, Tyrki og Úkraínubúi saman á einu borði. Nokkuð góður þverskurður. Sú eistneska er hæglát, lét ekki mikið yfir kreppunni enda væri ástandið verra í Lettlandi en heima hjá sér. Sú úkraínska lýsti því fjálglega hvernig litaðar sokkabuxur hefðu horfið úr búðum á einni nóttu og kaupmenn hefðu flýtt sér að hækka verð og kennt gengishækkunum um - þó þeir hefðu keypt vörurnar á gömlu gengi. Svo hljóp hún yfir götuna og keypti sér sokkabuxur í sex litum. Sú tyrkneska var hins vegar að hugsa um að fá sér nýjan bíl í kreppunni. Þetta væri nefnilega svo fínt, ríkisstjórnin hefði afnumið innflutningstolla á bílum og þegar það dugði ekki til þá felldi hún niður virðisaukaskattinn á þeim. Hún hefur líka fjárfest í lúxusvörum á einum tíunda af venjulegu verði, því verslanir keppast við að koma varningi út. Húsnæðisverð er líka að hrynja svo allir eru að skoða það að flytja. Atvinnuleysið er nú ekki nema 10%, við erum vön því, sagði hún svo. Greinilega einhver munur, annað hvort á aðstæðum og upplifun - eða viðbrögðum.

ES: Ég ýtti óvart á birtingu þegar leigubíllinn kom í dag og náði ekki að klára. Sú úkraínska sat og saup á prosecco meðan hún ræddi þetta ástand. Komst að þeirri niðurstöðu að tyrkneska leiðin væri skynsamlegri en sú íslenska - sem er sú sama og úkraínsk stjórnvöld aðhyllast, en benti svo að lokum á að veðurfar væri a.m.k. betra í Úkraínu en á Íslandi. Svona ef fólk ætlaði sér að búa við efnahagsástand á við þetta.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment