9.4.09

hvaða máli skiptir ESB?

Utanríkismál eru almennt ekki ráðandi þáttur í ákvörðunum fólks í kosningunm, a.m.k. ekki þar sem ég hef kynnt mér málin best, en það er í Bandaríkjunum. Ég hef svipaða tilfinningu fyrir ákvarðanatöku heima, að utanríkismálin séu ekki efst á baugi þegar fólk er að velja sér flokk (fyrir utan það hversu margir virðast kjósa af gömlum vana). Ég spurði nemendur mína nýlega að því í tíma hvort utanríkismál almennt, og Evrópusambandsstefna sérstaklega, réði því hvernig þau myndu kjósa í komandi kosningum. Af um 35 manna hópi voru aðeins 3-4 sem sögðu að þetta eina atriði myndi ráða atkvæði þeirra. Þegar við fórum aðeins betur í ástæður þess kom í ljós að þetta var það sem þau sáu sem lausnina á gjaldeyriskreppunni. Sumsé, innanríkismál en ekki utanríkismál sem ræður för.

Nú hef ég verið hér í Brussel í fjóra daga, á fundum með fjölda stofnana sem tengjast bæði Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu, og meirihluti þeirra sem ég tala við segjast byggja atkvæði sitt að miklu leyti á afstöðu flokka til ESB. Það er erfitt að finna fólk sem hefur starfað hér og er mótfallið Evrópusambandinu. Flestum virðist finnast það mjög mikilvægt að Íslendingar gangi inn til að þeir öðlist betri aðgang að ákvarðanatöku og úrræðum en nú er. Þetta er fólkið sem vinnur daglega með EES-samninginn og Evrópusambandinu. Þau sem koma hingað efins eða andsnúin virðast yfirleitt snúast fljótt á sveif með aðild.

Nemendur mínir kvörtuðu hins vegar margir hverjir yfir því að upplýsingar um ESB væru óaðgengilegar og sögðust þess vegna mörg eiga erfitt með að móta sér skoðun. Ef það er reyndin hjá, þá hvet ég fólk til að kynna sér t.d. umfjöllun mbl.is um Evrópusambandið. Um EFTA og EES samninginn má svo lesa hér. Viðfangsefni ESB eru talin upp hér og nánari upplýsingar má finna með því að smella á tenglana. Skortur á aðgengi að upplýsingum er varla tæk afsökun fyrir að hafa ekki kynnt sér þessi mál, sama hvaða ákvörðun fólk svo tekur.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment