2.4.09

Flokkaflakkarar

Ég sat á veitingastað hér í Róm í dag þegar hrekkjuglott birtist framan á kollega mínum ítölskum. Inn hafði gengið maður að nafni Clemente Mastella, sem er e-s konar Kiddi sleggja Ítalíu, en hann hefur setið á þingi fyrir eina fjóra flokka. Hann er talinn hafa fellt ríkisstjórn Prodis. Þegar Mastella skiptir um flokk gerir hann það þó á ljóðrænni hátt en íslenskir flokkaflakkarar. Þegar hann lýsti nauðsyn þeirrar ákvörðunar sinnar að færa sig milli flokka, þá fór hann með ljóð eftir Pablo Neruda, sem lýsir þörfinni fyrir það að breyta og skipta um. Það sé bara ekki hægt að hafa alltaf sömu skoðun.

Í takt við staðalímyndina af ítölskum pólitíkus, þá snæddi Mastella hádegismat með þremur öðrum körlum á aldur við sig. Þegar þeir voru búnir að borða tvöfaldaðist fjöldinn við borðið, háraliturinn lýstist umtalsvert og meðalaldurinn lækkaði um helming. Ítalski kollegi minn benti á eina ungu konuna við borðið og sagði: leggið þetta andlit á minnið. Hún verður örugglega orðin sjónvarpsstjarna áður en langt um líður. Gaman að svona fyrirsjáanlegum hlutum stundum.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment