13.4.09

að vera leiðinleg

Það er vel þekktur frasi í Bandaríkjunum að það sé gömul kínversk bölvun að óska einhverjum þess að hann/hún lifi á áhugaverðum tímum. Reyndar er lítið til sem sýnir fram á að þetta sé kínverskur frasi, en efnislega er samt spurning hvort eitthvað sé til í þessu. Það er ekkert áhugavert að fylgjast með stöðugleika, en krísurnar eru spennandi. Við búum á áhugaverðum tímum, um það held ég að enginn deili í bili. En er það okkur til blessunar, það er önnur spurning. Paul Krugman fjallaði um leiðinlega bankastarfsemi í nýlegum pistli í NY Times. Þar segir hann m.a. að fjármálastarfsemi í Bandaríkjunum fyrir kreppuna 1929 hafi verið mun áhugaverðari (og betur launuð) en hún var eftir að kreppunni lauk. Sama hafi mátt segja eftir 1980, þegar farið var að afnema takmarkanir á fjármálastarfsemi. Inn á milli, hins vegar, batnaði hagur heimilanna umtalsvert. Núna er aftur orðið miklu minna spennandi að vinna í fjármálageiranum. Alls kyns reglusetning er á dagskránni, rétt eins og var eftir kreppuna miklu. Ef þessar reglur verða til þess að almenningur býr við betri kjör, er þá ekki allt í lagi að vinnan verði aðeins minna spennandi hjá fjármálaverkfræðingum? Það er kannski ástæða til að vera svolítið leiðinleg. Ég bara velti því fyrir mér.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment