
Nú er Lýðheilsustöð með auglýsingu í Monitor, þar sem ein ástæðan fyrir því að ungt fólk ætti ekki að drekka er sögð vera að þannig eigi það síður á hættu að verða fyrir ofbeldi, hvort heldur er barsmíðum eða nauðgun. Það er kannski bara ég, en ég fæ á tilfinninguna að verið sé að vara stráka við barsmíðum og stelpur við nauðgunum (þessi frasi er reyndar ekki svona í bækling Lýðheilsustöðvar, en þar segir einungis á bls. 2 "áttu síður á hættu að verða fyrir ofbeldi"). Enn og aftur, skilaboðin eru að það er ekki ofbeldismanninum heldur fórnarlambinu að kenna. Eru skilaboðin virkilega að nauðgarar beri ekki ábyrgð á eigin hegðun?
Sjáið þið fyrir ykkur samfélag, þar sem konur fara algjörlega eftir þessum skilaboðum? Þær væru klæddar í búrkur, færu ekki einar út fyrir hússins dyr og skemmtu sér alls ekki á almannafæri - og myndu alls ekki neyta áfengis undir neinum kringumstæðum. Minnir þetta á eitthvað samfélag? Hvenær ætlum við að hætta þessu og fara að breyta afstöðu okkar til glæpsins, en ekki fórnarlambsins?
0 comments:
Post a Comment