19.4.09

reiknings- og kosningakúnstir

Það er grunnregla í aðferðafræði - a.m.k. eins og ég lærði hana - að setja upplýsingar fram á skilmerkilegan hátt, þannig að t.d. séu sömu mælieiningar notaðar í töflu. Þannig getur lesandinn best gert sér grein fyrir merkingu gagnanna. Svo er auðvitað hægt að velja hvernig gögn eru sett fram, ef maður t.d. vill slá ryki í augu lesenda, sbr. frasann sem gjarnan er eignaður Disraeli, að til séu lygar, bölvaðar lygar og svo tölfræði. Síðari leiðin er greinilega markmiðið hjá þeim sem auglýsa á næst síðustu síðu Morgunblaðsins í dag, undir hinu fagra heiti Áhugafólk um endurreisn Íslands. Sláandi skattahækkun, að því er virðist vera, blasir við öllum þeim sem eru með tekjur yfir 600.000 á mánuði.


Eða hvað? Svona lítur þetta út ef við horfum á tölurnar í samhengi (og hér er ég að gefa mér að þetta áhugafólk sé með réttu tölurnar í auglýsingunni):


Nú kann ég ekki mikið að fara með peninga, en ég held að ég gæti ráðið við auka 3000 krónur á mánuði í skatt ef ég væri með tekjur yfir 600.000 á mánuði. Og við skulum ekki gleyma því, að þessi ríkisstjórn og flokkarnir sem í henni sitja eru að íhuga hækka skatta (því enn sem komið er vinna þeir eftir fjárlögum sem samþykkt voru í tíð síðustu ríkisstjórnar) til þess að reyna að leiðrétta þann gífurlega halla sem varð til hjá ríkinu undir forystu stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Ég ber persónulega tiltölulega litla sök á ástandinu. Ég nýtti mér vissulega aðgang að auðfengnu lánsfé og lifði eflaust um efni fram að einhverju leyti, eins og svo margir. Ég var hins vegar andsnúin því að ríkið tæki þátt í að þenja hagkerfið út að ystu mörkum, með því að leggjast í brjálaðar framkvæmdir á sama tíma og þensla í einkageiranum keyrði verðbólgu upp. Ég tók ekki þátt í að skapa það umhverfi sem leyfði veruleikanum sem ég bjó við að verða að draumi.

En ef ég ætla að vera Íslendingur og sérstaklega ef ég ætla að búa á Íslandi, þá þarf ég að taka þátt í að borga þessar skuldir. Ég er tilbúin til þess. Það er nefnilega svo merkilegt, að það er til fólk sem er tilbúið að bera byrðar og axla ábyrgð, jafnvel á hlutum sem það er ekki sekt um. Eins og fræðimaðurinn Charles Sabel sagði, árið 1983, þá hefur það gjarnan verið þannig í evrópskum smáríkjum að í efnahagskrísum að það skapast samfélagsleg samstaða um að deila byrðunum af því að aðlaga stofnanir samfélagsins að breyttum aðstæðum. Það er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir núna. Ekki að rústa velferðarkerfinu, heldur reyna að viðhalda því.

===

Annað við þessa auglýsingu í Morgunblaðinu er svo auðvitað að hún skuli vera birt af ónefndum aðilum, sem falla þá ekki undir þær takmarkanir sem flokkarnir hafa sett sér og varðar fjáraustur í kosningaauglýsingar. Þetta er farið að lykta óþarflega mikið af stjórnmálabaráttu eins og hún er í Bandaríkjunum, þar sem "óháð" félög eru mynduð til að berjast gegn ákveðnum málstað eða frambjóðanda, frekar en að berjast fyrir sínum málstað eða sinn frambjóðanda. Eitt besta dæmið var Citizens United Not Timid (athugið hver skammstöfunin er), sem repúblikanar mynduðu Hillary Clinton til höfuðs. Árásir á hana voru gerðar í nafni þessa félagsskapar en ekki repúblikanaflokksins, rétt eins og falsið í auglýsingunni í Morgunblaðinu kemur að nafninu til ekki frá stjórnmálaflokki. Ég verð að viðurkenna að þetta eru ekki stjórmál sem eru mér að skapi.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment