21.4.09

Baulaðu nú Búkolla

Ég skrifaði um það fyrir nokkrum dögum að umræðan um Evrópusambandið hérna væri á frekar lágu plani. Fólk ber það fyrir sig að upplýsingar séu ekki nægjanlegar til að það geti mótað sér skoðun. Ég sé að Kolfinna talar um þetta í pistli á blogginu sínu og bendir á það sama og ég gerði; það er nóg til af upplýsingum ef fólk vill hafa fyrir því að kynna sér málið. Ég er eiginlega komin á það að við séum eins og litli strákurinn í þjóðsögunni um Búkollu, á flótta undan mikilli ógn og alltaf í leit að töfralausnum. Ég er hins vegar hrædd um að það verðum við sem sitjum föst í gatinu og verðum þar að steini ef við förum ekki að taka ákvörðun.

Einn helsti vandinn er að mínu mati að við stöndum frammi fyrir pólitísku verkefni og erum að leita að tæknilegri lausn. Tæknilega lausnin er að koma gjaldeyrismálunum í lag. Pólitíska lausnin er að skapa sátt um hvernig það verður gert. Mér heyrist á umræðu í samfélaginu að flestir séu sammála um að við þurfum að taka upp annan gjaldmiðil. Eini fjölþjóðlegi gjaldmiðillinn sem ég man eftir er evran. Við tökum hana ekki upp einhliða - ef við ætlum að vera trúverðug í alþjóðasamfélaginu - svo verkefnið hlýtur að vera að skapa sátt um pólitísku leiðina. En við kunnum ekki að taka á pólitískum vanda svo fylgismenn ólíkra sjónarmiða tala bara hver í kapp við annan og reyna að yfirgnæfa þann sem síðastur kvað sér hljóðs. Við ættum kannski að fara í námskeið í að hlusta?

Ég er sjálf að renna í gegnum skýrslu um þróun Evrópumála fyrir erindi sem ég held á vegum stjórnmálafræðideildar á morgun. Ég fékk eiginlega hláturskast þegar ég las innganginn, því það er algjörlega lýsandi fyrir umræðuna. Á 13 mánuðum sátu 16* manns í 11 manna nefnd. Er nokkur von að við komumst áfram í þessari umræðu?

*Samkvæmt upptalningu í inngangi áttu 15 manns sæti í nefndinni. Önnur manneskja skrifar þó undir sérálit Framsóknarflokks sen sá fulltrúi sem er nefndur í inngangi, svo það virðast hafa verið 16 manns sem áttu þarna sæti á 13 mánuðum.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment