19.4.09

forystuleysi

Það er ekki bara á Íslandi sem trúverðuga forystu skortir í stjórnmálaflokkum. Repúblikanaflokkurinn í Bandaríkjunum hefur verið í sárum frá því í haust, þegar John McCain tapaði fyrir Barack Obama í forsetakosningunum. Enginn augljós leiðtogi hefur komið fram á sjónarsviðið og flokkurinn er farinn að finna all verulega fyrir því. Fjöldi stjórnmálamanna hefur þegar hafið grunnvinnu að framboði til forseta árið 2012. Einn þeirra er Tim Pawlenty, ríkisstjóri í Minnesota. Hann réðst í síðustu viku á áætlanir Obama um endurreisn efnahagsins. Sumir vilja meina að Mitt Romney eigi enn möguleika, en bæði Sarah Palin og Bobby Jindal eru enn á sama lista. Talking Points Memo er þó að mínu mati með líklegustu niðurstöðuna. Þar segir að sá frambjóðandi sem ætlar að eiga möguleika á að sigra Obama þurfi að vera vinsæll, jarðbundinn, rólegur í kappræðum, ekki hrokafullur og ætti jafnvel að hafa stutt Obama-stjórnina þegar það var ekki líklegt til vinsælda. Tveir stjórnmálamenn í dag uppfylli þessar kröfur, og það eru Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kaliforníu, og Charlie Crist, ríkisstjóri í Flórída. Schwarzenegger er ekki kjörgengur til forseta, svo líklegur frambjóðandi repúblikana er sennilega Charlie Crist. Árangur Obama í efnahagsmálum á svo eftir að hafa úrslitaáhrif á það hvort hann nái endurkjöri eða ekki. TPM gefur sér að kreppunni verði lokið og allt verði í lukkunnar velstandi árið 2011. Þá er líklegt að Obama vinni Crist auðveldlega.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment