Nú eru línur að skýrast eftir kosningar, þótt ekki sé enn komin ný ríkisstjórn. Samfylkingin hefur gert það ljóst að Evrópusambandsaðild verði ofarlega á blaði og gott að flokkurinn standi við kosningaáherslur sínar í þeim efnum. Það hefur almennt verið stuðningur meðal kjósenda Vinstri grænna við aðildarviðræður, þótt ekki sé stuðningur við aðild. Það ætti því að vera möguleiki að leysa þennan hnút og halda áfram ríkisstjórnarsamstarfinu, nema forystan leggist einörð gegn viðræðum. Sú ríkisstjórn sem tekur við þarf hins vegar að sannfæra Evrópusambandið um að landinu sé alvara með umsókn, því knúið er á dyr ESB víða að og engin ástæða fyrir það að leggja í tímafrekar aðildarviðræður ef allar líkur eru á að aðild verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samningaviðræðurnar yrðu þannig á tveimur stigum samtímis; að sannfæra ESB um að við viljum inn og fá stuðning heima við að umsókn og aðild.
Annað verkefni sem ég vona að ríkisstjórnin leggi í á kjörtímabilinu er endurmótun stjórnarráðsins. Við höfum verið með 12 ráðherra í nokkurn tíma og allt að 15 ráðuneyti, ef ég man rétt. Nú eru einhverjir ráðherrar með fleiri en eitt ráðuneyti á sinni könnu, en engin hafa verið sameinuð nema landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti. Ég held að það væri tilvalin lausn fyrir nýja ríkisstjórn að halda utanþingsráðherrum í embættum meðan tillögur að endurmótun stjórnarráðsins eru fínpússaðar. Ég myndi vilja sjá eitt velferðarráðuneyti (heilbrigðis- og félagsmál), annað framleiðsluvegaráðuneyti (hluti iðnaðarráðuneytis, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti), sterkara umhverfisráðuneyti sem tæki orkumál einnig undir sinn væng (sjá hér umfjöllun um hvernig þessu er háttað á Kostaríku), menntamálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti (dómsmálaráðuneyti og sveitarstjórnarmál), utanríkisráðuneyti og fjármálaráðuneyti (með verkefnum viðskiptaráðuneytis). Með þessu mætti fækka ráðherrum í ríkisstjórn umtalsvert en mögulegt væri að hafa undirráðherra, eins og tíðkast í Svíþjóð, sem bera ábyrgð á ákveðnum málaflokkum en eiga ekki sæti í ríkisstjórn. Með þessu gæfist líka tækifæri til að færa málaflokka milli ráðuneyta og draga úr tvíverknaði. Svo vildi ég auðvitað líka sjá jafnréttisráðuneyti, en það er kannski best að fara ekki að láta sig dreyma of mikið alveg strax!
26.4.09
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
0 comments:
Post a Comment