1.4.09

Mótmæli hafin

Ég sat og horfði á sjónvarpsskjá á Keflavíkurflugvelli í morgun um sjöleytið þegar Barack Obama kom upp að Downingstræti 10 til að eiga fund með Gordon Brown í kringum G20 fundinn. Þegar ég tyllti mér á Heathrow voru vígbúnir lögregluþjónar fyrir framan tölvuskjá það fyrsta sem ég sá. Myndefnið var ekkert sérstaklega fallegt, mótmæli gegn G20 fundinum og þeim sem þar sitja, með mun meira ofbeldi strax en það sem ég sá sjálf á mótmælunum heima í vetur. Þarna er fólk ekkert að tvínóna við hlutina. Munurinn hér og á ástandinu heima er þó auðvitað að fundurinn er skipulagður fyrirfram og fólk getur ákveðið að mæta.

Skondið samt, Obama segir að Bandaríkin geti ekki endað kreppuna ein (ég hefði haldið að spurningin væri hvort Kína gæti það eitt) en næsta frétt er að fulltrúar á G20 fundinum telji samning um endurbata alþjóðahagkerfisins alveg á næsta leyti. Rétt upp hönd sem trúir því.

Annars hlýtur að vera brjálað að gera í mótmælum í Evrópu þessa dagana, því á föstudaginn er 60 ára afmæli NATO fagnað í Strasbourg.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment