31.3.09

stigs munur eða eðlis?

Flottur pistill hjá Árna Snævarr og þarft að vekja athygli á ábyrgð alþjóðasamfélagsins á aðstæðum kvenna í stríðshrjáðum og þróunarlöndum. Sem betur fer eru ekki bara vondar sögur að segja af ríkjum þar sem alþjóðasamfélagið hefur gripið inn í, en eins og ég þreytist ekki á að endurtaka, þá er það einmitt oft eftir samfélagslegt hrun sem færi gefst á því að leiðrétta stöðu kvenna í samfélaginu. Staða kvenna var á fáum stöðum verri en í Afganistan undir stjórn talíbana. Sú kúgun sem þær sættu var þó síður en svo einsdæmi. Á Vesturlöndum sæta konur annars konar kúgun sem oft er ekki jafn bersýnileg. Það eitt sem konur eiga sameiginlegt alls staðar í heiminum er að þær njóta ekki jafnrar stöðu á við karla.

Vændi og markaðssetning kvenmannslíkama, m.a. í nektarsýningum eru meðal þess sem er notað til að veikja stöðu kvenna í samfélögum víða um heim. Í dag átti að ræða á Alþingi brottnám undanþáguákvæðis í lögum um skemmtistaði, en þetta ákvæði hefur skapað rekstrarvettvang fyrir staði sem bjóða upp á nektarsýningar. Umræða fór ekki fram í dag. Fyrir þinginu liggur einnig lagabreytingartillaga um bann við kaupum á vændi. Þetta frumvarp situr enn fast í nefnd og algjörlega óljóst hvort það komist til umræðu, hvað þá að það verði afgreitt fyrir þinglok. Sumum þingmönnum þykir þetta víst ekkert tiltökumál, en rétt eins og við höfum sum áhyggjur af því að konur í Afganistan fái ekki um frjálst höfuð strokið, þá vona ég að meirihluti þingmanna telji það nauðsynlegt að skapa konum og körlum jafna stöðu í samfélaginu, til að bæði kynin fái notið þeirra jöfnu tækifæra sem við virðumst öll vera sammála um að þau eigi að njóta.

Annars velti ég líka fyrir mér hvort þetta eigi við um konur sums staðar, að þær séu svo bugaðar af aðstæðum að þær geti ekki barist.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment