25.4.09

autt er andóf

Það er áhugavert að fylgjast með Sjálfstæðisflokknum í dag og síðustu daga, reyna að sannfæra fyrrum dygga kjósendur um að autt sé atkvæði greitt einhverjum öðrum og ekki atkvæði greitt í mótmælaskyni. Þetta er sami flokkur og hvatti fólk til að mæta á kjörstað og skila auðu í síðustu forsetakosningum. Þá þýddi það að skila auðu að þú værir á móti öllum frambjóðendum. Núna þýðir "autt rautt" eins og einn kunningi minni sagði á Facebook síðunni sinni í dag.

Það eru margir í minni fjölskyldu sem hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn af tryggð í gegnum árin. Flestir þessara einstaklinga eru núna að velja á milli þess að sitja heima eða skila auðu. Ég tel það vera yfirlýsingu að mæta á kjörstað og skila auðu. Það segir stjórnmálamönnum að það sé ákveðinn hópur í samfélaginu sem treystir engum þeirra til góðra verka. Það eru skilaboð.

Sjálf er ég búin að kjósa. Ég kaus flokk sem ég treysti og tel mig afbragðsheppna með fólkið sem leiðir listann í mínu kjördæmi. Mér líður vel með það sem ég kaus. Ef fólk getur ekki, með góðri samvisku, hugsað sér að kjósa flokk sem það hefur stutt í gegnum sætt og súrt, þá á það frekar að skila auðu en styðja hann með óbragð í munninum. Í því að skila auðu felst andóf, sem er mikilvæg aðgerð í lýðræðislegu samfélagi.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment