30.3.09

netfrelsi

Um miðjan mánuðinn gáfu Blaðamenn án landamæra út skýrslu um frelsi netheima í heiminum. Í skýrslunni eru nokkur ríki nefnd sem óvinir internetsins og sennilega bregður fáum við að sjá listann. Í NY Times um helgina var svo aðeins fléttað við þessa umfjöllun, því það eru ekki bara ríkin sjálf sem beita netinu til að stjórna umfjöllun heima og heiman. Ýmsum leiðum er beitt, þ.á m. að bjóða upp á ókeypis aðgang að vefmiðlum sem eru stjórnvöldum þóknanlegir, en rukka fyrir niðurhal af öðrum, m.a.s. innlendum miðlum. Ein helsta leiðin til að stjórna netinu er auðvitað með ritskoðun. Einnig er ógnunum gjarnan beitt, en þetta tvennt er það sem RSF beina sjónum sínum helst að.

Í NYT er hins vegar fjallað sérstaklega um það, hvernig ríki eru farin að beita fyrir sig bloggurum til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Rétt eins og fyrirtæki fá fólk til að blogga um nýjar vörur, þá fá ríki bloggara til að fjalla um ákvarðanir og stefnumótun til að láta svo líta út sem þær njóti víðtæks stuðnings í samfélaginu. Þannig er því lýst hvernig Kína er með her bloggara á sínum snærum sem spinna fréttum ríkinu í hag. Sama má segja um Ísrael, sem sneri vörn í sókn eftir að fjöldi ísraelskra vefsíða voru hakkaðar í kringum árásirnar á Gaza. Núna ku Ísrael vera með fjölda bloggara sem bæði skrifa jákvætt um ríkið og eru duglegir að setja athugasemdir inn á vefi annarra. Kínverjar reyndu svipaða leið og borguðu fimm sent fyrir hverja athugasemd sem studdi við aðgerðir ríkisstjórnarinnar í kringum ólympíuleikana í fyrra.

Þetta rifjaði upp fyrir mér að ég hef heyrt að sambærilegum aðferðum sé beitt hérna heima. Auðvitað sér maður stundum þess merki þegar fólk sem tengist ákveðnum flokkum eða málefnum bloggar nokkurn veginn samhljóða. Mér finnst þó áhugaverðara hvernig athugasemdum er beitt markvisst til að stýra umræðu og jafnvel þagga niður í fólki. Ég heyrði dæmi nýlega um að fjöldi athugasemda hefðu verið sett á bloggfærslur til varnar stjórnmálamanni, en sá eða sú sem skrifaði athugasemdirnar áttaði sig ekki á því að IP-talan var birt, svo það var augljóst að sama manneskja var að reyna að móta umræðuna. Væri ekki gaman ef einhver fylgdist með þessu í kringum kosningarnar núna? Ritgerðarefni í boði fyrir áhugasaman háskólanema.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment