4.3.09

ófyrirséðar afleiðingar

Vef- og tímaritið Foreign Policy er með skemmtilegan dálk sem heitir Missing Links. Í nýjasta heftinu er tekið á ófyrirséðum afleiðingum kreppunnar, og höfundurinn (sem er prófessor í alþjóðasamskiptum) bendir á þrettán punkta. Væri gaman að fylgjast með hvort þetta á við hér á landi. Hér eru punktarnir, sem ég leyfi mér að staðfæra aðeins þar sem við á.

1. Ríkið verður klárara: Mjög einfalt, samkeppni um hæfasta starfsfólkið verður minni og ríkið getur valið úr úrvals umsækjendum. Fjöldi umsækjenda í stöður skrifstofustjóra í samgönguráðuneytinu gefur vísbendingu um að þetta sé strax farið að gerast.

2. Meiri spilling viðgengst hjá hinu opinbera: Samkeppni um framkvæmdir á vegum hins opinbera eykst og framkvæmdaaðilar eru líklegri til að reyna að bæta tilboð sín undir borðið. Transparency International spáði aukinni spillingu í janúar.

3. Það léttir til á himnum: samdráttur í framleiðslu dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við stefnum þó í hina áttina, m.v. að þingmenn reyna að halda íslenska ákvæðinu lifandi í Kyoto-samningunum og álver eru enn á teikniborðinu.

4. Netið verður enn meira pirrandi: Samdráttur í dagblaðaútgáfu gerir netauglýsingar meira aðlaðandi. Er þetta ekki orðin raunin hér nú þegar?

5. Trúrækni eykst. Athugasemdir frá prestum velkomnar, ég fer ekki nógu oft í kirkju til að dæma um þetta.

6. Unga kynslóðin lærir að spara: Áhættusækni þeirra sem eru á barnsaldri í dag verður mun minni en þeirrar kynslóðar sem var við stjórnvölinn í útrásinni.

7. Pilsfaldar lækka og meðalaldur og -þyngd fyrirmynda hækkar: það er nokkuð vel þekkt kenning að pilsin styttast á uppgangstímum. Nýrri rannsóknir benda til að kvenfyrirsætur verði þéttvaxnari og stjörnur í kvikmyndum eldri þegar samdráttur er í hagkerfum. Ég sá einmitt nýlega vangaveltur um þetta í samhengi við Grammy-verðlaunahafa - og ýmsar ráðningar hér heima upp á síðkastið fengu eina vinkonu mína til benda á að tími miðaldra karlmanna væri kannski liðinn, en tími gamalla karla væri runninn upp.

8. Herinn stækkar: á augljóslega ekki við hér, en það er spurning hvort Varnarmálastofnun eigi við? Rökin eiga ekki við um hana, herir erlendis skaffa störf fyrir ungt fólk sem oft er fyrst til að missa vinnuna. Hérna eru það skólarnir sem fyllast.

9. Opinberir skólar komast í tísku: Hér geta orsakirnar verið tvíþættar: Einkaskólarnir hafa lagt mikla áherslu á viðskiptatengdar greinar og ásókn í þær gæti dregist saman. Þá geta skólagjöldin fengið fólk til að sækja frekar í ríkisskólana.

10. Eldri borgarar neita að hætta í vinnunni: Séreignasparnaður og eftirlaun duga kannski ekki fyrir afborgunum, svo fólk vill síður hætta í vinnunni. Sjá einnig lokasetninguna í lið 8!

11. Jörðin er ekki lengur flöt: Verndarstefna og útlendingahatur eykst. Fréttaflutningur af erlendri grund getur líka dregist saman.

12. Nouriel Roubini fær enn fleiri ferðapunkta: Hér má setja inn nafn hagfræðings að eigin vali, nóg er af þeim í fjölmiðlum og sölum háskólanna á landinu. Ráðstefnur um kreppu kapítalismans verða eins og gorkúlur.

13. Kreppubókmenntir komast í tísku: Hér heima hefur verið meira fjallað um bókamarkaðinn en mig rekur minni til að hafi verið gert áður. Hvað er fólk að kaupa? (sjá t.d. Kiljuna í kvöld, fyrsta hluta). Hodding Carter IV fékk risafyrirframgreiðslu til að skrifa bókina A Year of Living Within Our Means.
Setja á Facebook

2 comments:

Anonymous said...

Þetta með pilsfaldana er allavega ekki komið fram, unglingurinn dóttir mín lítur ekki á síð pils, hún er oft í buxum, en pilsin eru blöðrubólgustutt í augnablikinu.

Anonymous said...

fróðlegt og fræðandi
kókó

Post a Comment