8. mars ár hvert er haldinn hátíðlegur alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Við búum vissulega við betri stöðu kvenna hér á landi en víðast hvar í heiminum, en þó er margt sem upp á skortir til að hin svokölluðu jöfnu tækifæri sem lögin eiga að skapa kynjunum skili þeim í raun jafnri stöðu. Þetta er einmitt atriði sem gleymist gjarnan í jafnréttisumræðunni, að lögin sem við búum við heita lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þau eiga sumsé að jafna stöðu kynjanna í samfélaginu, ekki bara rétt þeirra.
En hvernig er staða kvenna í íslensku samfélagi? Í frétt núna í vikunni er sagt frá því að mælingar fjölmiðlavaktarinnar sýni að konur voru 22% viðmælenda fjölmiðla á árinu 2008. Sjálfri fannst mér ég taka eftir bakslagi í kringum bankahrunið, þegar konur hurfu úr fjölmiðlum og körlum fjölgaði umtalsvert. Það heyrist oft í kringum þessa umræðu að konur séu bara ragari við að fara í fjölmiðla að tjá sig, þær neiti því o.s.frv. Ég held þó að ég sé nokkuð týpísk fyrir þær konur sem leitað er til um álitsgjöf, og ég hreinlega segi ekki nei, því ég reyndi það einu sinni, þegar mér fannst ég a) ekki vera hlutlaus og b) ekki hafa næga sérþekkingu. Ég benti þeim sem hringdi því kurteisislega á þrjár aðrar konur sem væru betur til þess fallnar að svara spurningunni. Ég heyrði í lyklaborði í smástund, svo sagði hann: "Við eigum ekki myndir af þeim. Hefurðu ekki skoðun á þessu?" Ég sagði honum að hringja aftur eftir hálftíma, hringdi í nokkrar vinkonur mínar í fræðunum og gaf svo svar byggt á samtölum mínum við þær. Þá get ég líka talað út frá minni reynslu við fjölmiðlun, en ég var með klukkutímalangan þátt á RÚV í heilan vetur. Ég held ég hafi gert einn, kannski tvo þætti, þar sem engin kona var viðmælandi. Ein kona baðst undan því að koma í þáttinn þegar ég hringdi, það var af því hún var ekki á landinu. Ég þurfti hins vegar oft að ganga harðar að körlunum til að fá þá til að mæta. Til að bæta við þetta, þá telst mér til að af 67 bloggum á Eyjunni séu 45 skrifuð af körlum, nokkur eru hópblogg, eitt er hjónablogg. Afgangurinn eru konur, þ.e. rétt um 20.
Þessi tala er aðeins ein birtingarmynd þeirrar ójöfnu stöðu sem konur og karlar búa við í íslensku samfélagi. Kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, fjöldi kvenna í stjórnmálum og stjórnunarstöðum og lágt hlutfall karla í umönnunarstörfum eru önnur dæmi. Það er því enn mikið verk að vinna. Í tilefni dagsins er fundur í Ráðhúsi Reykjavíkur kl. 14 á sunnudag og hádegisfundur á Grand Hóteli í hádeginu á mánudag, en þar er ég m.a. með erindi.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
0 comments:
Post a Comment