29.3.09

sigurgarðar

Í heimsstyrjöldunum á síðustu öld tóku Bandaríkjamenn til þess ráðs að leggja garðana sína undir grænmetisræktun. Leiðbeinandinn minn heitinn sagði mér frá sínum fyrstu minningum í Brooklyn, þar sem hann ólst upp, þegar var verið að gróðursetja um miðja heimsstyrjöldina síðari og hvernig litlir garðblettir fyrir framan húsin voru fullir af grænmeti á sumrin. Garðarnir voru kallaðir sigurgarðar (Victory Gardens) þar sem almenningur dró úr eftirspurn eftir matvælum sem herinn þurfti að nota, og lagði þar með sitt af mörkum til þess að Bandaríkin mættu hafa sigur í stríðinu. Þessir garðar eru að komast aftur í tísku í Bandaríkjunum, þótt ástæðurnar séu ekki alveg þær sömu. Landið er vissulega í stríði, en núna er oftast um að ræða tilhneigingu til að draga úr koltvísýringslosun, vilja neyta matar sem er framleiddur í næsta nágrenni og sporna gegn offitu með hollara mataræði.

Í fréttum uppá síðkastið hefur nokkuð borið á umfjöllun um matjurtagarða. Námskeið í ræktun matjurta eru í boði bæði hjá Endurmenntun HÍ og Landbúnaðarháskólanum og eru víst bæði mjög vinsæl. Framboð á matjurtagörðum í Reykjavík og á Akureyri annar ekki eftirspurn. Þetta lýsir kannski tilhneigingu okkar Íslendinga til að takast á við vandamálin af aðeins of mikilli ákefð á stundum, en mér dettur samt í hug að ástæðurnar séu þær sömu og voru á bakvið þá rækt sem Bandaríkjamenn lögðu í sína 20 milljón sigurgarða. Þetta er vissulega framlag til heimilisins - þeir sem ekki hafa efni á að kaupa ferskt grænmeti geta kannski fengið það með því að leggja vinnu sína fram. En er þetta ekki líka leið til að efla baráttuandann; upplifum við valdeflingu við það að ná tökum á matvælaframleiðslunni? Ég hef a.m.k. á tilfinningunni að hér sé síður um að ræða umhverfissjónarmið eða locavorisma, eins og færa má rök fyrir erlendis.

Sjálf ætlaði ég að stinga upp spildu í garðinum mínum í fyrra en komst aldrei í það. Heiti bót og betrun um leið og þíða kemst í jörðina í vor. Ég held samt að það sé betra framlag til hagkerfisins að kaupa íslenskt grænmeti.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment