
Í fréttum uppá síðkastið hefur nokkuð borið á umfjöllun um matjurtagarða. Námskeið í ræktun matjurta eru í boði bæði hjá Endurmenntun HÍ og Landbúnaðarháskólanum og eru víst bæði mjög vinsæl. Framboð á matjurtagörðum í Reykjavík og á Akureyri annar ekki eftirspurn. Þetta lýsir kannski tilhneigingu okkar Íslendinga til að takast á við vandamálin af aðeins of mikilli ákefð á stundum, en mér dettur samt í hug að ástæðurnar séu þær sömu og voru á bakvið þá rækt sem Bandaríkjamenn lögðu í sína 20 milljón sigurgarða. Þetta er vissulega framlag til heimilisins - þeir sem ekki hafa efni á að kaupa ferskt grænmeti geta kannski fengið það með því að leggja vinnu sína fram. En er þetta ekki líka leið til að efla baráttuandann; upplifum við valdeflingu við það að ná tökum á matvælaframleiðslunni? Ég hef a.m.k. á tilfinningunni að hér sé síður um að ræða umhverfissjónarmið eða locavorisma, eins og færa má rök fyrir erlendis.
Sjálf ætlaði ég að stinga upp spildu í garðinum mínum í fyrra en komst aldrei í það. Heiti bót og betrun um leið og þíða kemst í jörðina í vor. Ég held samt að það sé betra framlag til hagkerfisins að kaupa íslenskt grænmeti.
0 comments:
Post a Comment