8.3.09

kvennamómentið sem næstum varð

Konur náðu afburðagóðum árangri í mörgum prófkjörum um helgina. Í sumum tilvikum var árangurinn svo góður að kjörstjórnir hafa lagt til að karlar verði hækkaðir upp á kynjakvóta. Konur voru fimm efstu hjá Framsóknarflokknum í suðvesturkjördæmi - tveir karlar verða hækkaðir upp á topp fimm til að viðhalda 40/60 hlutföllum (parity eða jöfnuði) milli kynja. Hjá Samfylkingunni í norðvesturkjördæmi varð karl efstur en konur í næstu fjórum sætum. Karl er hækkaður upp í 4. sætið á kynjakvóta. Hjá VG í suðurkjördæmi varð karl efstur og konur í 2.-4. sætum, en þar túlkar kjörstjórn lög flokksins á þann veg að karlar og konur verði að vera í öðru hvoru sæti og hækkar karla upp í 3. og 5. sæti og breytir þannig m.a.s. hlutföllum kynjanna í fimm efstu sætunum.* Kjörstjórn VG í Reykjavík hafði hins vegar séð fyrir að ef farið yrði eftir kynjakvóta flokksins myndi það hamla konum og ákvað því að láta niðurstöður kosninganna standa eins og þær kæmu út. Hugsunin þar er augljóslega sú að á grundvelli kvenfrelsisstefnu flokksins, og í ljósi þess að staða kvenna á þingi er enn veikari en staða karla, þá eigi ekki að beita þessum reglum til að styrkja stöðu karla.

Mér finnst grátlegt, að loksins þegar fyrstu tveimur skilyrðum þess að konum vegni vel í stjórnmálum er mætt - þ.e. að konur velji sig til starfa (bjóði sig fram) og að flokkarnir velji þær, þá sé reglum sem ætlað er að styðja þær í veikari stöðu, beitt til að hindra framgang þeirra. Þriðja skilyrðið er að kjósendur velji svo þá lista sem konur leiða, en svo virðist sem þeim verði gert ansi erfitt um vik.

Hér er reyndar ein vangavelta enn, sem mér finnst athyglisverð. Í dreifbýlli kjördæmunum utan höfuðborgarsvæðisins er kynjakvótunum beitt. Í borginni er vikið frá þeim ef þeir hamla framgangi kvenna. Á þingi situr núna engin kona af landsbyggðinni fyrir Samfylkinguna, aðeins ein fyrir VG, þrjár fyrir Framsóknarflokkinn og fjórar fyrir Sjálfstæðisflokkinn (tvær Framsóknarkonur og ein Sjálfstæðiskona komu inn sem varamenn þegar kjörnir karlar viku af þingi). Úr þessum kjördæmum koma 29 þingmenn, þar af 8 konur. Hlutfall kvenna á landsbyggðinni er því aðeins 27%, eða réttum 10% lægra en hlutfall kvenna á þingi í heild. Í Reykjavíkurkjördæmunum og suðvesturkjördæmi eru 14 þingkonur af 34 þingmönnum, þ.e. 41% þingmanna og því innan parity-marka. Eru kjördæmin á höfuðborgarsvæðinu þá orðin kynjajöfnunarkjördæmi?

Mér finnst alveg magnað að á alþjóðlegum baráttudegi kvenna sé reglum sem ætlað er að stuðla að jafnri stöðu kynjanna beitt til að vinna gegn málstaðnum. Það er augljóslega að gerast, sem ég hef spáð lengi, að karlar geta farið að þakka fyrir jafnréttisbaráttu kvenna, því reglurnar munu koma þeim til bjargar fyrr en síðar. Nú er auðvitað stóra spurningin, hvernig finnst körlunum að fá sæti ofarlega á lista, BARA af því þeir eru karlar?

*Reyndar á í flestum tilvikum eftir að staðfesta listana á kjördæmisráðafundum eða álíka og því enn möguleiki á einhverjum breytingum. Það fer eftir reglum flokkanna.
Setja á Facebook

3 comments:

Unknown said...

Sæl Silja
Ég er pínu ósammála þér með að kynjakvótinn sé til staðar til að styrkja stöðu kvenna. Hann var settur til að viðhalda jafnrétti. Eins og staðan var fyrir fáum mánuðum vann hann með konum en nú vinnur hann með okkur körlunum. Aftur á móti er ég algjörlega á móti öllum kynja- eða jafréttiskvóta, því eins og núna þegar konur hafa mikinn meðbyr þá vinnur hann á móti þeim.
Þú virðist að pirra þig á þessu af skiljanlegum ástæðum. Þetta er mjög ólýðræðislegt. Þú getur aftur á móti ekki setið báðu megin við borðið og viljað kvótan þegar þú ert í minnihluta en mótmælt honum þegar hann vinnur gegn þér. Er ekki best að sleppa honum yfir höfuð?

Anonymous said...

skil ég þig rétt, þú ert á móti því að karlar séu hækkaðir um sæti til að við halda jafnrétti en ekki þegar þessu er öfugt farið. er það ekki svolítil hræsni að ætlast til þess að þetta vinni bara aðra leiðina.

get ekki betur séð en þú standir fyrir kvenn forréttindi ekki jafnretti. ef við ætlum að hafa reglur um kynja kvóta eða "jákvæða"mismunun verðum við að fara alltaf eftir reglum ekki bara alltaf.

"jákvæð"mismunun er alltaf ósanngjörn þar sem hún er mismunar fólki. fólk á að vera metið eftir verðleika ekki kyni.
Bjöggi

Anonymous said...

Já, fá ekki karlar jafnrétti á silfurfati? Ekki hópuðust þeir fyrir utan fæðingardeildir og heimtuðu að fá að vera viðstaddir? Né heimtuðu þeir fæðingarorlof, og spurðust ekki einu sinni fyrir á sínum vinnustöðum, fyrr en forstjórarnir tóku sjálfir fæðingarorlof. Þeir flokkar sem hafa e-r kynjasjónarmið, hafa þá afþví konur hafa barist fyrir þeim, en svo nýtist það nærri eingöngu körlum.
kókó

Post a Comment