26.3.09

aðgangur að fjölmiðlum

Það var nokkuð um það rætt í liðinni viku að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) ætlaði að senda hingað kosningaeftirlitsmenn til að fylgjast með kosningunum í lok apríl. Margir töldu þetta algjöra niðurlægingu fyrir íslenskt lýðræði og sýna að áætlaðar breytingar t.d. á kosningakerfinu væru til þess eins fallnar að veikja lýðræðið. Eftirlitið hlyti að sýna að við værum ekki að standa okkur. Reyndin er hins vegar sú að ÖSE, sem sinnti kosningaeftirliti aðallega í Austur-Evrópu eftir fall Berlínarmúrsins til að tryggja innleiðingu og uppbyggingu lýðræðis þar, hefur sífellt meira beint augum sínum í vestur til að skoða hvernig rótgróin lýðræðisríki eru að standa sig. Við höfum t.d. alltaf fengið hrós fyrir hversu vel þess er gætt að allir fái notið kosningaréttar síns; tryggt er t.d. að fangar og fólk sem dvelur á öðrum stofnunum geti kosið þrátt fyrir að komast ekki á kjörstað. Hafandi sjálf búið erlendis, þá veit ég hversu mikilvægt mér hefur þótt að geta komist á kjörstað þrátt fyrir að vera ekki á landinu þegar kosningar eiga sér stað.

Eitt helsta umræðuefni skýrslu ÖSE, sem unnin var eftir heimsókn fulltrúa stofnunarinnar til landsins í byrjun mars, er aðgangur að fjölmiðlum og jöfn og sanngjörn umfjöllun um ólík framboð (bls. 4 og 8, en sérstaklega liður F). Í sérkafla um fjölmiðla er tekið fram að lög um fjölmiðla taki ekki til umfjöllunar um kosningar, fyrir utan almenna reglu að líta skuli til lýðræðislegra reglna, virða tjáningarfrelsi og setja fram ólík sjónarmið. Þetta veiti ritstjórn þó umtalsvert frelsi. Fulltrúar fjölmiðla sögðu nefnd ÖSE að tilhneigingin væri annars vegar til að veita framboðum á þingi eða líklegum til að ná þingsætum meiri umfjöllun, og hins vegar að þó öllum frambjóðendum væri tryggð aðkoma í umræðum í útsendingu, þá væri ekki fylgst með þeim tíma sem hvert framboð fyrir sig fengi í útsendingu, hvort heldur í stjórnmálaþáttum eða fréttaumfjöllun (bls. 9).

Í ljósi þess að fjölmiðlaumfjöllun er eitt helsta áhyggjuefni ÖSE, finnst mér merkilegt að daginn sem prófkjör Sjálfstæðisflokksins fór fram voru tveir frambjóðendur í prófkjörinu viðmælendur í vinsælum íþróttaþætti. Að sama skapi þykir mér áhugavert að annar varaformannsframbjóðandi Samfylkingarinnar verði í spjallþætti á Skjá einum annað kvöld, helgina sem kjör nýrrar forystu í Samfylkingunni fer fram. Ef frambjóðendum er hyglt á þennan hátt í kringum forval og innanflokkskosningar, hvernig má þá búast við að aðgengi frambjóðenda að fjölmiðlum verði í kringum kosningarnar sjálfar? Í þessu samhengi má benda á að myndir með Arnold Schwarzenegger voru ekki sýndar á opnum rásum í Kaliforníu meðan hann var í framboði til ríkisstjóra. Framboð hans fór fram á þetta, en eldri dæmi sýndu að mótframbjóðendur gætu krafist jafnrar meðferðar (þ.e. sama tíma í útsendingu) og frambjóðandi sem birtist í mynd í afþreyingarefni.

Ég held það þurfi að setja reglur - eða a.m.k. að fjölmiðlar þurfi að gefa yfirlýsingu um það hvernig þeir tryggja jafnan aðgang framboða og frambjóðenda að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga. Þar til það gerist hvet ég umsjónarmenn þátta til að huga að því hvort þeir geti verið að gefa viðmælendum sínum ósanngjarnt forskot með því að bjóða þeim í þætti til sín.
Setja á Facebook

1 comments:

Birgitta Jónsdóttir said...

mjög þarfur og góður pistill - takk fyrir mig.

Post a Comment