Ég horfði á viðtalið við Geir Haarde á BBC í kvöld. Ég hef alltaf litið á Geir sem vandaðan mann og hef talið hann vera hæfan til þeirra starfa sem hann hefur sinnt, þó ég sé ekki sammála honum í pólitík. Ég hef alls ekki verið sammála því hvernig fyrrverandi ríkisstjórn, undir hans forystu, brást við hruninu síðastliðið haust. En eftir að horfa á viðtalið í kvöld velti ég fyrir mér hvort ekki sé um víðtækari vanda að ræða, en að um viðbrögðin ríki ágreiningur. Ein sú grundvallarregla, sem mér hefur þótt mikilvægust í lífinu, kemur úr gömlu bresku dómsmáli og það er reglan um að ekki dugi að framfylgja réttlætinu heldur verði að vera sýnilegt að því sé framfylgt. Þannig verði fólk að gera grein fyrir aðkomu sinni að málum og víkja ef mögulegt er að þátttaka þess í ákvarðanatöku rýri trúverðugleika niðurstaðna. Ég reyni að segja nemendum mínum alltaf - og hvet þá til að spyrja mig ef þeir eru ekki vissir - þegar ég set fram persónulega skoðun og reyni að gera þeim grein fyrir því af hvaða rótum sú skoðun er spunnin. Þannig finnst mér þeir geta metið upplýsingar út frá sínum lífsskoðunum og verið ósammála ef þannig stendur á.
Einn helsti vandi fyrri ríkisstjórnar, að mínu mati, var að hún var ekki tilbúin til að viðurkenna að trúverðugleiki hennar gæti hafa skaddast við hrunið. Þetta var ekki endilega spurning um að hún ætti sök á hruninu, heldur að margir gátu séð fyrir sér aðstæður þar sem fólk í stjórninni hefði komið að ákvörðunum sem leiddu til slæmra aðstæðna. Ef sá möguleiki var fyrir hendi var ekki sjáanlegt að réttlætinu hefði verið framfylgt. Þess vegna er svo mikilvægt að fólk biðjist afsökunar. Ekki að það beri sök, eins og Geir vill bíða eftir að fá skorið úr um, heldur að kannski hafi það verið orðið of nátengt málunum og ekki getað sýnt að það væri að vinna að réttlætinu. Ég hef engan sérstakan áhuga á því að fólk verði sakfellt, þó auðvitað eigi að rannsaka lögbrot til hins ýtrasta. Ég tel hinsvegar að lögbrotin verði tiltölulega fá þar sem flest það sem gerðist var í samræmi við lög. Hins vegar finnst mér stjórnmálamenn þurfa að axla siðferðislega og pólitíska ábyrgð með því að viðurkenna að ákvarðanir þeirra kunni að hafa verið - eða virst vera - litaðar af tengslum og aðild að málum. Þess vegna þarf fólk að biðjast afsökunar. Þess vegna þurfti fyrrverandi ríkisstjórn að segja af sér - þó hún hafi enn ekki beðist afsökunar.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
3 comments:
Alveg sammála. Þetta snérist ekki beint um sök í haust, heldur ábyrgð og traust. Geir, Ingibjörg, Davíð og fleiri skýldu sér á bak við að enginn hafi framið neitt saknæmt en það var ekki málið til að byrja með. Vandamálið var að þjóðin var fremur ótilbúin til að treysta þessu fólki fyrir framtíð sinni og lífsviðurværi. Þau virtust hafa sofið á verðinum fram að hruninu og voru því ekki traustist verð. Þau vildi bara ekki samþykkja það.
Hvort sem einhver nefnd kemst svo seinna að því að þetta hafi allt verið löglegt, enginn hafi brotið neinar reglur (nema hugsanlega Jón Jónsson í lægstu stöðu eða jafnvel almenningur í landinu) þá var gríðarleg þörf á því að fólkið í ábyrgðarstöðunum tæki ábyrgð.
Persónulega á ég ekki von á því að neinn verði látinn sæta ábyrgð og að eini "aðilinn" sem verði krafinn um skaðabætur verði ríkissjóður. Á endanum er það alltaf hann (við) sem borgar.
Eftir allt sem hefur gengið yfir okkur undanfarna mánuði væri ég alveg til í að vita hvað drífur ungt fólk í stjórnmálafræði í dag.
Kv, Kolbrún
Frábær pistill.
Ég er ungur maður, með bakgrunn í raunvísindum, sem hefur sjaldan verið jafn áhugasamur um stjórnmálafræði og þessa dagana!
Ekkert endilega til að taka þátt í stjórnmálum.
Kári
Post a Comment