22.1.09

um skríl

Ég rölti í bæinn í kvöld, eyddi meirihluta kvöldsins í að fá fréttir af fundi Samfylkingarinnar og að spjalla við fólk sem bíður spennt eftir breytingum. Settist svo inn á knæpu með vinum mínum og þegar ég gekk heim ætlaði ég yfir Austurvöll. Þar voru sprengingar og læti, þykkur reykur lagði í áttina til okkar. Ég týndi vinum mínum í æsingnum sem fylgdi, hljóp inn í 10-11 og keypti lauk til að skera fyrir fólk sem ekki gat andað. Ég veit ekki hvað var á undan gengið en mér var brugðið, ég viðurkenni það jafn fúslega og forsætisráðherra viðurkenndi að sér hefði brugðið við aðförina að bifreið hans í dag.

Þetta ljóð Böðvars Guðmundssonar hefur lengi verið mér hugleikið. Þar til í haust hélt ég alltaf að Böðvar hefði samið það um framandi lönd. Núna er ég alls ekki svo viss.

Vögguvísa róttækrar móður:

Nú syng ég lítið stef
við þinn sængurstokk í kvöld
og sólin rennur langt að fjallabaki
um þá sem sitja sléttir
og slóttugir við völd
og sleppa aldrei neinu fantataki.

Morðingjar heimsins
og myrkraverkaher
munu reyn’að draga úr þér kjarkinn
en gleymdu því samt aldrei
að meir’en maklegt er
að af mörgum þeirra
höggvist sundur barkinn.


Þeir eiga glæstar hallir
þeir eiga lúxusbíl
þeir eiga meir’en nóg
til hnífs og skeiðar
þeir kæf’okkur í táragasi
og kalla okkur skríl
þeir koma okkar vandræðum til leiða.


Morðingjar heimsins
og myrkraverkaher
munu eflaust pína þig til dauða
en gleymdu því samt aldrei
að meir’en maklegt er
að úr mörgum þeirra
vætli blóðið rauða.

Nú segi ég að lokum
fyrst sólin hnigin er
og svefnsins engill
stýkur þér um hvarma
að margan góðan drenginn
þeir myrtu þar og hér
og margur hlaut að dylja sína harma.

Morðingjar heimsins
og myrkraverkaher
myrða okkur líka einhvernveginn
en gleymdu því samt aldrei
að meir’en maklegt er
að af mörgum þeirra
verði skjátan flegin.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment