11.11.08

af seinagangi í póstinum

Fulltrúi í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segist ekkert kannast við að bréf frá íslenska ríkinu til stjórnar sjóðsins hafi verið móttekið. Ég held það viti orðið varla nokkur maður hvað er rétt og hvað ekki í þessu sjóðsmáli öllu saman. Eitt veit ég þó og það er að þessi aðferð er vel þekkt þegar tefja á mál sem henta illa að verði afgreidd.

Í fyrra lífi vann ég rannsóknir á pólitíkinni í kringum aðra meingallaða alþjóðastofnun, Alþjóða hvalveiðiráðið. Þar hefur smölun tíðkast í áratugi og þegar ég mætti á fund árið 2003 var þar að finna alls konar ríki sem höfðu mismikið með hvalveiðar að gera. Eitt ríki, fámennt og áhrifalítið, hafði nýlega gengið í ráðið með því að senda bréf til Bandaríkjastjórnar, en utanríkisráðuneytið þar í landi er svokallað "depository" fyrir samninginn. Fulltrúi ríkisins mætir síðan á fund og ætlar að kjósa - með hvalveiðisinnum en á móti Bandaríkjunum og öðrum ríkjum sem vilja banna hvalveiðar með öllu. Þá bar svo við að Bandaríkin sögðust ekki hafa fengið bréfið og þessi fulltrúi fékk því einungis sæti meðal áheyrenda, með ríkjunum sem ekki höfðu borgað aðildargjöldin sín. Ég fór og talaði við hann í næsta kaffihléi - þetta passaði vel inn í stúdíuna mína - og hann sýndi mér afrit af bréfinu og afrit af hraðsendingarkvittuninni. Ég rölti mér yfir til formanns bandarísku sendinefndarinnar og spurði hann hverju það sætti að pósturinn væri svona seinn í ferðum hjá þeim. Hann spurði mig í þaula um bréfið og kvittunina, baðst síðan afsökunar, hann þyrfti að skjótast frá. Þegar kaffihléinu lauk var búið að koma þessum fulltrúa smáríkisins fyrir á réttum stað í salnum og hann kominn með atkvæðisrétt. Þangað til voru Bandaríkjamenn þess fullvissir í sínu valdi að ekki væri hægt að sanna að bréfið hefði verið sent og stjórn ráðsins gat ekkert gert til að krefja þá um það.

Íslenska ríkisstjórnin þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum - gera bréfið opinbert, a.m.k. fyrir fulltrúum stjórnarinnar, og hamra sérstaklega á fulltrúa Norður- og Eystrasaltslandanna í stjórninni að hann láti leita að bréfinu og tryggi að það verði tekið fyrir. Ég bíð annars bara eftir því að bréfið birtist hér, áður en íslensk stjórnvöld segja okkur frá því hvað stendur í því.
Setja á Facebook

3 comments:

Anonymous said...

Klikkelsi hjá þeim að fá ekki Bjarna Harðarson til að senda fyrir sig þetta bréf. Hans póstur virðist hvorki komast seint né illa til skila.

Anonymous said...

Pósturinn Páll pósturinn Páll pósturinn Páll og kötturinn Njáll... er hann ekki brezkur? Gæti skýrt sitthvað.

Anonymous said...

Aðvitað var bréfið sent og auðvitað er bréfið komið á áfangastað. Aðeins að slaka á!

Post a Comment