1.10.08

kosningar hafnar

Það verður eflaust áhugaverð rannsókn einhvern tímann að bera niðurstöður utankjörstaðaatkvæða við niðurstöður frá kjördegi, því ef ástandið skánar eitthvað getur verið að þau atkvæði sem skilað er inn núna á fyrstu dögum utankjörstaðakosninga verði töluvert öðruvísi en þau sem skilað er í kjörkassana 4. nóvember (ekki að ég haldi að ástandið fari eitthvað að skána). Efnahagsástandið hefur haft töluverð áhrif á kjósendur, Obama er nú með 250 örugg atkvæði skv. CNN en McCain aðeins með 189, og þá eru 99 eftir í pottinum (270 þarf til að sigra). Á tæpri viku hefur heldur betur dregið í sundur með frambjóðendunum og ríki eins og Virginía og Flórída eru allt í einu óákveðin en hafa heillengi verið örugg fyrir repúblikana.

Ég er reyndar farin að hallast að því að ég vilji að repúblikanarnir vinni - ástandið á bara eftir að versna (Jack Welch skrifar um það hér, hér er góð grein sem minnir á að ástandið í kreppunni miklu var mun skárra 1929 en það var þremur árum seinna og önnur um að mögulega megi merkja hér upphaf nýs kafla í sögu Bandaríkjanna) og þar af leiðandi á forsetinn sem verður kjörinn núna ekki séns á endurkjöri. Ég vil frekar að demókrati verði forseti meðan hagkerfið verður byggt upp aftur en í fjögur stutt ár meðan allt er í rjúkandi rúst! Reyndar væri kannski þess virði að fá demókrata strax við stjórnvölinn ef þeim tækist nú að koma smá böndum á frjálshyggjuna - af hverju ætti markaðurinn að virka án reglna þegar samfélagið gerir það ekki? Kreppan sem er í gangi á mörkuðunum er farin að endurspeglast í pólitíkinni - þessi pistlahöfundur heldur því fram að repúblikanar hafi ekki samþykkt björgunartillögurnar á mánudaginn þar sem þeir hafi staðið frammi fyrir trúarkreppu - tillagan eins og hún hljómaði krafðist þess af þeim að þeir viðurkenndu að Reaganisminn væri dauður. Þeir demókratar sem ekki samþykktu tillöguna gerðu það á þeim forsendum að ekki væri nægilega hugað að hagsmunum einstaklinga, sérstaklega húseigenda. Öldungadeildin vinnur nú að nýrri tillögu til að reyna að bjarga hagkerfinu, sem er í rjúkandi rúst.

Talandi um rjúkandi rúst, þá verður sukkveisla allra stjórnmálafíkla á morgun - stefnuræða forsætisráðherra á þingi og kappræður varaforsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum um nóttina. Hér er áhugaverð grein frá manni sem keppti við Palin um ríkisstjóraembættið í Alaska. Hann segir hana vera meistara "ekki-svara", að hún hafi ótrúlegan eiginleika til að fylla salinn með nærveru sinni og heilla áhorfendur þrátt fyrir að sýna ekki þekkingu eða tök á viðfangsefninu. Biden, segir hann, þarf að svara spurningum eins og hann sé einn á sviðinu og ekki takast beint á við Palin.

Annars athyglisverð umræða sem er að hefjast í Bandaríkjunum, um bók sem Gwen Ifill er að skrifa um kynþætti og stjórnmál í Bandaríkjunum og það hvort hún sé vanhæf til að stjórna kappræðunum milli varaforsetaframbjóðendanna út af bókinni. Umræðan er í þessum dúr þó McCain telji hana munu sinna sínu starfi. Ifill er ein af mínum uppáhaldsstjórnmálaskýrendum, ég bauð henni að koma til landsins sl. vor að fjalla um forkosningarnar en hún var því miður bundin í öðrum verkefnum.
Setja á Facebook

2 comments:

Anonymous said...

Takk fyrir pistilinn, úff hvað er þægilegt að lesa pistil um annað en Glitni eftir þrjá daga af slíku.

Jón Eggert

Anonymous said...

samt - kappræður "my ass." Þau eru bæði meira og minna að lesa frasa af blaði.

Post a Comment