28.10.08

jafn vanhæf kona

Algjör snilldar pistill hér þar sem Judith Warner minnir á að femínistinn Bella Abzug hafi sagt að jafnréttisbaráttan snúist ekki um það að einungis hæfasta konan fái framgang, heldur að jafn vanhæfar konur og vanhæfir karlar fái sömu tækifærin. Warner segir að út frá þessu sjónarmiði hafi það ekki verið árangur Hillary Clinton í forkosningunum, heldur það að Palin sé varaforsetaefni repúblikana sem er stóri viðburðurinn í jafnréttismálum í ár. Palin hafi nefnilega aldrei skarað fram úr, hafi aldrei þurft að vera betri til að standa jafnfætis körlunum. Ann Richards, fyrrum ríkisstjóri í Texas, sagði einu sinni: "Ginger Rogers gerði allt sem Fred Astaire gerði. Hún gerði það bara afturábak og í háum hælum." Það lýsir nokkurn veginn því sem konur hafa þurft að gera til að ná árangri í pólitík. Maður er bara svo vanur því að vanhæfir karlar komist áfram að maður nennir varla að tuða yfir því. Hillary Clinton hefur skarað fram úr allt sitt líf. Hún varð að vera það, rétt eins og Barack Obama þarf, kynþáttar síns vegna, að vera tvisvar sinnum trúverðugri en hvítur maður í sömu stöðu, til þess að vera samkeppnishæfur. Konur og minnihlutahópar ógna valdi hvítra karlmanna. Palin ógnar engum. Þess vegna var hún ásættanlegur frambjóðandi. En það virðist ekki duga til fyrir konu að vera bara í meðallagi, ekki einu sinni þegar hún er bara aukaleikari.

Í framhaldi af síðustu færslu og ábendingum Carvilles og Begala til repúblikana, þá er hér grein frá Nagourney, kosningasérfræðingi NY Times, um það hvort staða McCains væri betri ef hann hefði valið einhvern karl í staðinn fyrir Palin. Það hafa þó ekki allir gefist upp. Hér ráðleggur Bill Kristol, einn fárra sem enn verja Palin, McCain um lokasprettinn í kosningabaráttunni.
Setja á Facebook

4 comments:

Anonymous said...

Sif Friðleifsdóttir sagði þetta einhvern tímann í umræðu inn á Alþingi, að jafnrétti yrði ekki náð fyrr en óhæfar konur færu að veljast í störfin og þar á meðal á Alþingi.

Þannig að þetta er ekki svona bara í Bandaríkjunum, heldur hérna á skerinu líka.

Af hverju er munurinn að minnka á milli Obama og McCain skv. síðustu skoðanakönnunum? Maður les bara slæmar fréttar af McCain-kosningabaráttunni og efnahagslífið er að fara fjandans til, en samt minnkar munurinn núna.

Anonymous said...

Merkilegt hvernig þú hampar Hillary, en fullyrðir að Palin sé vanhæf. Hillary komst áfram á eiginmanni sínum, Palin á eigin forsendum. Í eldri pistli talar þú um fatakaup Palin. Af hverju þurfa karlar aldrei að þola svona umræðu; hvað koma föt málinu við. Mér finnst að þú eigir að koma þér upp úr svona málflutningi og tala málefnalega um frambjóðendur. Blindur stuðningur við Obama er jafn undarlegur og blindur stuðningur við andstæðinginn.

Silja Bára Ómarsdóttir said...

Já, nafnlaus, Hillary komst pottþétt áfram á manninum sínum þegar hún hélt útskriftarræðu árgangsins síns í einum besta háskóla Bandaríkjanna og þegar hún komst inn í og útskrifaðist úr einum besta lagaskóla landsins. Hún varð partner í lögmannsstofu út á manninn sinn. Framgangur hennar í pólitík hefur verið að hluta til byggður á manninum hennar en hans var líka byggður á hennar framlagi. Palin kemst áfram á nákvæmlega því sama og vanhæfir karlar hafa komist áfram á, tengslum, útliti, sjarma svo eitthvað sé nefnt.

Ef þú læsir einhvern tímann greinarnar sem ég tengi við það sem ég skrifa gætirðu aðeins slakað á upphrópununum hér inni. Ég hefði kosið að Obama væri ekki frambjóðandi demókratanna en stuðningur minn við hann er síður en svo í blindni því sem valkostur við McCain er hann bara yfirgnæfandi betri kostur. Þegar ég vísaði í fatakaupin hér að neðan, þá var það eingöngu í samhengi við það að Frum segði að allt tiltækt fé í sjóðum repúblikana ætti að leggja í framboð demókrata til öldungadeildarinnar, ekki í forsetakosningarnar.

Og mér líður svo mikið betur að vita hvað þér finnst!

Eygló, gaman að heyra frá þér. Er að skoða kannanir núna, næ vonandi að skrifa um það í kvöld eða fyrramálið.

Anonymous said...

Ég veit ekki betur en Hillary hafi frekar verið dragbítur á stjórnmálaferli eiginmanns síns, bæði í Arkansas og í forsetakjörinu. Hann talar meira að segja um það í ævisögu sinni.

Post a Comment